Íslenski boltinn

Skilaboðin fóru fyrir allra augu á Facebook

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Stefán
Sigurður Ragnar Eyjólfsson birti í gærkvöldi skilaboð á Facebook-síðu sinni sem áttu bersýnilega aðeins að rata til leikmanna hans hjá ÍBV.

Þar fór hann yfir markið sem ÍBV fékk á sig í leiknum gegn FH í gærkvöldi en Atli Viðar Björnsson skoraði sigurmark Hafnfirðinga í uppbótartíma leiksins.

„Ég fór inn á vitlausa síðu og eru það mín mistök. Ég hélt að ég hefði verið á sameiginlegu leikmannasíðunni okkar og ég setti þetta inn svo við gætum allir lært af þessu,“ sagði Sigurður Ragnar við Vísi í dag en hann sagði að „lekinn“ væri ekki alvarlegur.

Í skilaboðunum segir hann að markvörðurinn Abel Dhaira hefði ekki átt að hlaupa út í boltann því þarna hefðu verið fimm varnarmenn til að takast á við aðstæður. Hann tók þó fram að með þessu væri hann ekki að gagnrýna Abel heldur gætu allir leikmenn lært af þessu atviki.

„Þetta var röng ákvörðun en tekin í hita leiksins,“ skrifaði Sigurður Ragnar. „Við verðum allir að læra af þessu. Við vinnum og töpum saman sem lið.“

Sigurður Ragnar skrifaði í pistlinum að markið hefði ekki átt að standa gilt því brotið hefði verið á Óskari Zoega [Óskarssyni] í aðdraganda marksins. Hann ítrekaði það í samtali við Vísi í dag. „Mér fannst þetta ólöglegt mark því það er klárlega brotið á honum. Þetta er nú í annað skipti í aðeins fjórum leikjum þar sem ákvörðun dómara hefur úrslitaáhrif á leikinn.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×