Íslenski boltinn

Bjarni hættur hjá Fram: "Vildu bara losna við mig"

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Bjarni Hólm Aðalsteinsson spilar ekkert í sumar.
Bjarni Hólm Aðalsteinsson spilar ekkert í sumar. Vísir/Daníel
„Jú, það passar,“ segir knattspyrnumaðurinn Bjarni Hólm Aðalsteinsson í samtali við Vísi, aðspurður hvort hann sé búinn að gera starfslokasamning við Pepsi-deildarlið Fram.

Bjarni er frá vegna meiðsla en hann er með ónýtt liðband og verður frá keppni allt tímabilið. „Þessi starfslokasamningur hefur ekkert með meiðslin að gera,“ segir hann.

„Ég var að æfa á fullu á fullum krafti síðan í desember og allt í góðu. Ég kom aðeins við sögu í Reykjavíkurmótinu en svo var ég allt í einu ekkert að fá að spila þegar ég var heill og þá fannst mér þetta vera orðið eitthvað skrítið.“

Seyðfirðingurinn öflugi, sem spilaði vel í hjarta varnarinnar með Fram á síðasta tímabili, gerði nýjan samning við Safamýrarliðið eftir síðasta tímabil en þegar nýtt ár rann í garð vildu Framarar ekki halda honum lengur.

„Þeir gáfu mér einhverjar tvær ástæður fyrir þessu sem ég kaupi ekki alveg og eru í raun og veru bara algjört kjaftæði. Ég var nýbúinn að semja en svo vildu þeir bara losna við mig,“ segir Bjarni við Vísi.

Bjarni fór í aðgerð vegna meiðslanna og stefnir á að vera klár sem fyrst en hann verður sem fyrr segir ekkert með í sumar. Þetta tímabil er alveg búið hjá honum.

„Ég meiðist eftir að þetta allt saman kemur upp þannig ég ákvað að fara bara í aðgerðina. Ég ætla að ná mér alveg heilum og vera klár eins fljótt og hægt er,“ segir Bjarni Hólm Aðalsteinsson sem er nú án liðs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×