Íslenski boltinn

Tómas Joð: Farið svo illa með Baldur að ég þori ekki að afsaka þetta

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Tómas Joð Þorsteinsson og félagar töpuðu fyrir FH í kvöld.
Tómas Joð Þorsteinsson og félagar töpuðu fyrir FH í kvöld. Vísir/Daníel
Fylkismenn eru búnir að tapa fyrstu tveimur leikjum sínum í Pepsi-deild karla í fótbolta en liðið lá í valnum gegn FH, 3-0, í Kaplakrika í kvöld.

FH-ingar voru miklu betri í leiknum en Tómas Joð Þorsteinsson, leikmaður Fylkis, vildi ekki afsaka sig eða liðið eftir leik til að vera ekki tekinn jafnilla fyrir í netheimum og Baldur Sigurðsson, leikmaður KR.

Baldur kvartaði undan sólinni eftir tap KR gegn Val í fyrstu umferðinni á gervigrasinu í Laugardal og skemmtu menn sér mikið á samskiptamiðlum eins og Twitter daginn eftir að skjóta á Baldur.

„Þetta var mjög erfiður leikur fyrir okkur. Ég er mjög hræddur við að koma með afsakanir því það var farið svo illa með Baldur Sig vin minn,“ sagði Tómas Joð við Guðmund Marinó Ingvarsson, blaðamann Vísis, eftir frammistöðu Fylkis í kvöld.

„Ég get sagt að við erum með mikið betra lið heldur en þetta. Við erum nægjanlega ábyrgðarfullir til að axla ábyrgð á þessu. Þetta er okkar tap.

„Við leikmennirnir sem vorum þarna inni á og liðið ætlar að sýna í næstu leikjum að við erum miklu betri en þetta,“ sagði Tómas.

Fylkir fékk fá færi gegn Stjörnunni í fyrstu umferð og liðinu gekk enn verr fram á við í kvöld. Fylkismenn hljóta að hafa áhyggjur af sóknarleiknum.

„Það er vissulega áhyggjuefni. Við fengum einhver hálffæri gegn Stjörnunni en þetta er þáttur sem við þurfum að vinna í,“ sagði Tómas Joð Þorsteinsson.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×