Íslenski boltinn

Baldur: Tek stríðnina ekki inn á mig

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Baldur Sigurðsson, fyrirliði KR.
Baldur Sigurðsson, fyrirliði KR. Vísir/Daníel
Baldur Sigurðsson, fyrirliði KR, var ánægður eftir 2-1 sigur Íslandsmeistaranna á Breiðabliki á Samsung vellinum í Garðabænum.

„Okkur er mjög létt. Við vissum að byrjun væri gríðarlega erfið enda leikið gegn Val, Blikum og FH. Draumurinn auðvitað að fá níu stig úr þeim leikjum þá var það kannski hæpið. Eftir lélegan leik gegn Val var léttir að fá þrjú stig í dag," sagði Baldur Sigurðsson, fyrirliði KR.

„Okkur hefur gengið illa gegn Blikum síðustu ár og því var þetta kærkomið. Hugarfarið hjá okkur var mun betra núna en síðast. Við náðum tveim alvöru æfingum milli leikja og það var allt annað að sjá menn.

„Það var allt annað tempó og grimmd í mönnum. Okkur leið illa eftir tapið í síðasta leik. Það er alltaf tilhlökkun fyrir fyrsta leik og því hræðilega leiðinlegt að tapa honum."

Elfar Freyr Helgason var næstum búinn að jafna fyrir Blika í lokin og þá hefði komið í bakið á þeim hversu illa þeim gekk að nýta færin í leiknum.

„Þetta var varnarmaður að skjóta þarna þannig að við höfðum engar áhyggjur," sagði Mývetningurinn stríðinn.

Talandi um stríðni þá hefur Baldur fengið sinn skammt af henni eftir "sólarummælin" í síðasta leik. Nú var engin sól og KR tók öll stigin.

„Ég var ekkert að ljúga með sólina í síðasta leik," sagði Baldur og brosti dátt. "Ég tek þessa stríðni ekki inn á mig enda er ég ekki hörundssár maður. Ég er búinn að hlæja að þessu alla vikuna. Það var mjög gott að menn væru frekar að tala um einhver sólarummæli hjá mér en hvað við vorum lélegir. Þetta var bara taktík."

Hér fyrir neðan má sjá allt um leikinn og fleiri viðtöl.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×