Innlent

Segir að Reykjavíkurborg hafi algerlega brugðist leigjendum

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir að Reykjavíkurborg hafi ekki náð að tryggja nægilegt lóðaframboð í borginni og þess vegna hafi húsaleiga hækkað á undanförnum árum.

Þetta kom fram í svari ráðherra við fyrirspurn Helga Hjörvar þingmanns Samfylkingarinnar á Alþingi í dag. Helgi spurði ráðherra hvort ríkisstjórnin ætli sér að leiðrétta forsendubrest leigjenda.

„Nú hafa borist fréttir af því að leigugjöldin hjá þeim sem eru á leigumarkaðnum hafi verið að hækka mjög ört. Þar tel ég að spili mjög inn í lögmálin um framboð og eftirspurn. Ég tel að Reykjavíkurborg hafi algerlega brugðist í því að tryggja nægilegt framboð af lóðum til uppbyggingar á húsnæði sem mætir þeirri gríðarlega miklu eftirspurn sem greinilega er til staðar. Kannski gætu fleiri sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu tekið það til sín en við höfum tekið eftir því að bæði í Kópavogi og í Garðabæ hefur verið byggt gríðarlegt magn af fjölbýlishúsum á undanförnum árum, langt umfram það sem áður tíðkaðist,“ sagði Bjarni.

Hann segir mikilvægt að skapa þau skilyrði að vextir geti lækkað.

„Markvissasta aðgerðin til að koma til móts við þá sem eru á húsnæðismarkaði, sama hvort það eru þeir sem hafa keypt sitt eigið húsnæði eða eru á leigumarkaði, er að ná tökum á ríkisfjármálunum og byggja undir forsendur fyrir lækkun vaxta. Lægri vextir munu skila sér í hagstæðari leigukjörum og hagstæðari vaxtakjörum fyrir þá sem kaupa húsnæði,“ sagði Bjarni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×