Erlent

Evrópusambandið íhugar aðgerðir gegn Úkraínu

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Slasaður mótmælandi eftir átök við lögreglu.
Slasaður mótmælandi eftir átök við lögreglu. vísir/afp
Evrópusambandið íhugar nú aðgerðir gegn yfirvöldum í Úkraínu í kjölfar átakanna sem gengið hafa yfir undanfarið og náðu hámarki í nótt. Að minnsta kosti 26 létu lífið í Kænugarði í átökum á milli lögreglu og mótmælenda og yfir þúsund eru sagðir slasaðir.

Jose Manuel Barroso, forseti Framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, segir í yfirlýsingu að sambandið styðji við bakið á Úkraínumönnum á leið sinni að endurbótum, lýðræði og friði.

Donald Tusk, forsætisráðherra Póllands, segist ætla að beita sér fyrir því í samstarfi við önnur Evrópusambandsríki að Úkraína verði beitt viðskiptaþvingunum vegna framgöngu lögreglunnar. Þetta hafa aðrir leiðtogar tekið undir í dag. Þá eru utanríkisráðherrar Frakklands, Póllands og Þýskalands á leið til Úkraínu þar sem þeir munu freista þess að ræða við stjórnvöld um ástandið.

Viktor Janúkovítsj, forseti Úkraínu, hefur lýst yfir þjóðarsorg í landinu á morgun. Hann hvetur leiðtoga stjórnarandstöðunnar til að spyrða sig ekki við „öfgahópa sem þrífist á blóðsúthellingum og átökum“.

Þá fjallaði Frans páfi um málefni Úkraínu í messu í Vatíkaninu í dag. Hann hvatti stríðandi fylkingar til að láta af ofbeldinu og koma á friði í landinu.

Mótmælendur grafa upp gangstéttarhellur til þess að henda í lögreglumenn.vísir/afp
Mótmælandi í Kænugarði stendur fyrir framan brennandi jeppa.vísir/afp
Slasaður lögreglumaður leiddur á brott af félögum sínum.vísir/afp
Mótmælin teygja anga sína víða. Þessi mynd var tekin fyrir framan höfuðstöðvar lögreglunnar í borginni Lviv í vesturhluta Úkraínu.vísir/afp
Mótmælandi mundar múrstein í Kænugarði.vísir/afp
Viktor Janúkovítsj, forseti Úkraínu, hefur lýst yfir þjóðarsorg í landinu.vísir/afp



Fleiri fréttir

Sjá meira


×