Sport

Sotsjí er öruggasti staðurinn á jörðinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lögreglan er á hverju götuhorni í Sotsjí.
Lögreglan er á hverju götuhorni í Sotsjí. Vísir/NordicPhotos/Getty
Íþróttafólkið er farið að týnast til Sotsjí í Rússlandi þar sem að Vetrarólympíuleikarnir verða settir í lok næstu viku. Rússar ætla að sjá til þess að öll öryggisgæsla verði fyrsta flokks og jafnvel enn betri en það.

Það verða meira en fimmtíu þúsund hermenn og lögreglumenn að vinna við leikana og Dmitry Chernyshenko, yfirmaður framkvæmdanefndar leikanna í Sotsjí sagði við blaðamenn í gær að borgin væri tilbúin.

„Sotsjí er núna öruggasti staður á jörðinni," sagði Dmitry Chernyshenko meðal annars á blaðamannafundinum.

Sotsjí er í suður Rússlandi og nálægt sögulegum átakasvæðum og það fór um marga eftir hryðjuverkaárás í Volograd á dögunum en sú borg er 675 kílómetrum norður af Sotsjí. Að minnsta kosti 34 létust í þessari hryðjuverkaárás.

Margir af íþróttamönnunum segjast hafa ráðlagt fjölskyldum og vinum að sleppa því að koma til Sotsjí vegna ótta um öryggi þeirra en þrátt fyrir það segir Chernyshenko að miðasala gangi vel og þegar hafi 70 prósent miða á leikana selst. 20 prósent miðanna er haldið eftir fyrir keppnisdagana sjálfa.

Forráðamenn leikanna fullvissa alla við öll tækifæri að öryggisgæslan sé og verði frábær í Sotsjí og í dag þykja ekki vera miklar líkur á því að sjálfir keppnisstaðirnir verðir fyrir árás.

Fréttir af "Svörtum ekkjum" hafa samt vakið óhug en samkvæmt þeim á fólk sem hyggur á sjálfsmorðsárásir að vera þegar komið til Sotsjí-borgar. Hryðjuverkaumræðan verður því eflaust allan tímann hluti að umfjöllum um Vetrarólympíuleikana í ár.

Vísir/NordicPhotos/Getty
Vísir/NordicPhotos/Getty
Vísir/NordicPhotos/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×