Handbolti

Ekki sammála valnefndinni og gaf liðsfélaganum verðlaunin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mikkel Hansen fagnar sæti í undanúrslitum með félögum sínum.
Mikkel Hansen fagnar sæti í undanúrslitum með félögum sínum. Mynd/AFP
Mikkel Hansen hefur spilað vel með danska landsliðinu á EM í handbolta en danska stórskyttan verður vonandi hvíld í kvöld þegar Danir mæta Íslendingum í lokaleik riðilsins.

Mikkel Hansen er sá leikmaður á mótinu sem hefur gefið langflestar stoðsendingar (36 í 5 leikjum eða 7,2 í leik) og hefur þar þrettán stoðsendingar forskot á næstu menn sem eru Nikola Karabatic hjá Frakklandi og Filip Mirkulovski hjá Makedóníu. Hansen gefur hinsvegar ekki bara stoðsendingar á félaga sína í danska landsliðinu.

Danir tryggðu sér sigur í milliriðlinum með 28-24 sigri á Ungverjum og Mikkel Hansen var þá valinn besti maður liðsins eftir að hafa verið með fimm mörk og átta stoðsendingar í leiknum.

Mikkel klikkaði samt á helmingi skota sinna (5 af 10) og tapaði fimm boltum og hann sjálfum þótt hann ekki eiga verðlaunin skilin. Mikkel var því fljótur að afhenda liðsfélaga sínum Thomas Mogensen verðlaunin.

„Þetta var mjög einfalt. Mogensen var bestur í okkar liði og það sáu allir að ég átti ekki minn besta leik. Mér fannst hann eiga þetta skilið," sagði Mikkel Hansen við Jyllandsposten.   Thomas Mogensen var með 5 mörk (í 6 skotum) og 5 stoðsendingar í þessum leik.

„Þetta var samt bara í fyrsta sinn í okkar leikjum þar sem ég var ekki sammála valnefndinni. Kannski gleymdu þeir bara að horfa á annan hálfleikinn í þessum leik," sagði Mikkel Hansen sem er oftast mjög léttur í viðtölum við danska fjölmiðla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×