Handbolti

Lindberg: Duvnjak er besti handboltamaður í heimi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Domagoj Duvnjak.
Domagoj Duvnjak. Vísir/AFP
Hans Lindberg, hornamaðurinn í danska handboltalandsliðinu sem á íslenska foreldra, er á því að Króatinn Domagoj Duvnjak sé besti handboltamaður í heimi en ekki danska stórskyttan Mikkel Hansen eða franska jarðýtan Nikola Karabatic.

Lindberg tjáði sig um Domagoj Duvnjak fyrir leik Dana og Króata í undanúrslitum Evrópumótsins í handbolta í kvöld. Lindberg þekkir Duvnjak mjög vel því þeir hafa verið liðsfélagar hjá þýska liðinu HSV Hamburg í fimm ár.

„Hann er leikmaður sem spilar á mjög háu plani og er að mínu mati sá besti í heimi í dag. Hann getur spilað allar stöður fyrir utan og ef hann skorar ekki mörkin þá er hann arkitektinn á bak við þau," sagði Hans Lindberg við JV.dk.

„Duvnjak er einnig frábær í hraðaupphlaupunum og þó að ég reyni þá er erfitt fyrir mig að finna eitthvað sem hann gerir ekki vel. Hann hefur frábært auga fyrir liðsfélögunum og stjórnar leik Hamburg-liðsins," sagði Lindberg.

Domagoj Duvnjak hefur komið að 50 mörkum Króata á mótinu, Mikkel Hansen hefur átt þátt í 64 mörkum og Nikola Karabatic er maðurinn á bak við 53 mörk Frakka. Allir þessi þrír eru bæði með 23 mörk eða fleiri og 23 stoðsendingar eða fleiri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×