Handbolti

„Við bjuggum eins og dýr“

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Slavko Goluza.
Slavko Goluza. Vísir/Getty
Þjálfari karlalandsliðs Króatíu í handbolta var allt annað en sáttur á blaðamannafundi eftir tap sinna manna gegn gestgjöfum Dana á EM í handbolta í gær.

Danir unnu sigur 29-27 og tryggðu sér sæti í úrslitaleiknum á sunnudag. Króatar þurfa að sætta sig við að leika um þriðja sætið við Spánverja.

„Gestgjafarnir hafa gert allt sem þeir geta til að næla í gullið, öllu hagað til fyrir þá og við bjuggum eins og dýr í þremur borgum,“ sagði Slavko Goluza á blaðamannafundinum.

Þá sneri hann sér að dómurum leiksins sem hann taldi hafa verið afar hliðholla Dönum.

„Leikmenn mínir féllu til jarðar eins og þetta væri keila, ekki handbolti,“ sagði Goluza. Hann bætti við að hann hefði verið í sjálfskipuðu banni í nokkur ár frá því að tjá sig um dómgæslu. Nú yrði hann að gera hlé á því.

Ulrik Wilbek, þjálfari Dana, var afar hneykslaður á framkomu Goluza á blaðamannafundinum. Sá króatíski sá að sér síðar um kvöldið og sagðist hafa farið yfir strikið í hita leiksins.

Úrslitaleikur Dana og Frakka hefst klukkan 16:30 á morgun. Klukkan 14:00 mætast Króatar og Spánverjar í bronsleiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×