Handbolti

Frakkland Evrópumeistari | Aftur steinlá Danmörk í úrslitum

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Guigou skorar og Landin situr eftir súr á svipinn
Guigou skorar og Landin situr eftir súr á svipinn Vísir/Getty
Frakkland varð í dag Evrópmeistari í handbolta í þriðja sinn með því að skella Danmörku næsta auðveldlega 41-32 í Herning í Danmörku. Frakkland var sjö mörkum yfir í hálfleik 23-16.

Danmörk tapaði með 16 marka mun í úrslitum heimsmeistaramótsins fyrir ári síðan og virðist liðið ekki vita hvernig á að stilla spennustigið í úrslitaleikjum.

Frakkland keyrði yfir Dani strax í byrjun og var 13-4 yfir eftir 17 mínútna leik. Frakkland náði tíu marka forystu í fyrri hálfleik en var þó aðeins sjö mörkum yfir í hálfleik 23-16.

Markvarsla hefur verið aðall Danmerkur í mótinu en markverðir liðsins náðu sér engan vegin á strik fyrir aftan slaka vörnina.

Frakkland lék á alls oddi í sókninni og virtist liðið geta skorað að vild.

Frakkland byrjaði mjög vel í vörninni og náði að loka á Mikkel Hansen í byrjun sem lagði gruninn að forystunni sem Danmörk náði aldrei að vinna upp þó það gengi betur í sóknarleik Danmerkur er leið á leikinn.

Michael Guigou var markahæstur hjá Frakklandi með 10 mörk. Valentin Porte skoraði 9 mörk, Luc Abalo 7, Daniel Narcisse 6 og Nikola Karabatic 5. Thierry Omeyer varði 12 skot.

Mikkel Hansen gerði sitt besta til að draga vagninn og skoraði 9 mörk. Hans Lindberg skoraði 6 og Henrik Möllgaard 4. Niklas Landin varði 4 skot og Jannick Green 6.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×