Handbolti

Sá besti fékk núll í einkunn

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Landin svekktur á svip í leiknum í dag.
Landin svekktur á svip í leiknum í dag. Vísir/AFP
Bent Nyegaard, handboltasérfærðingur TV2, er ekki að skafa af hlutunum eftir útreið danska karlalandsliðsins í úrslitaleik Evrópumótsins gegn Frökkum í dag.

Danir sáu aldrei til sólar í leiknum og töpuðu 41-32. Frændur okkar töpuðu einnig úrslitaleiknum á HM á Spáni fyrir ári er heimamenn tóku þá í kennslustund 35-19.

Nyegaard gefur öllum leikmönnum danska landsliðsins einkunn fyrir frammistöðuna í dag. Niklas Landin, markvörður Rhein-Neckar Löwen sem valinn var í úrvalslið mótsins, fær núll í einkunn líkt og línumaðurinn René Toft Hansen. Allar einkunnirnar má sjá á vef TV2.

„Hann var með 15 prósent vörslu í úrslitaleiknum á EM. Þannig fór það en ég minnist ekki að hafa séð hann svo slakan nokkru sinni. Hann fékk ekki hjálp frá vörninni en stóð sig líka illa,“ segir Nyegaard um Landin sem er af mörgum talinn besti markvörður í heimi í dag.

Um Hansen sagði Nyegaard:

„Það er óþarfi að flækja hlutina. Þetta var ekki hans dagur. Hann fékk tvær tveggja mínútna brottvísanir snemma í leiknum og var of seinn í öllum sínum aðgerðum. Hann var aldrei límið sem átti að halda danska liðinu saman.“

Þjálfarinn Ulrik Wilbek fékk einn í einkunn eins og fleiri leikmenn liðsins. Mikkel Hansen og Hans Lindberg fengu fjóra af sex í einkunn og voru hæstir í einkunnagjöfinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×