Erlent

Borgarstjóri Sochi segir enga samkynhneigða í borginni

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Málefni hinsegin fólks eru í brennidepli í aðdraganda Vetrarólympíuleikanna.
Málefni hinsegin fólks eru í brennidepli í aðdraganda Vetrarólympíuleikanna. vísir/getty
Anatoly Pakhomov, borgarstjóri Sochi þar sem fyrirhugaðir Vetrarólympíuleikar fara fram í febrúar, segir enga samkynhneigða vera í borginni. Þetta kemur fram á vef BBC, en yfirvöld í Rússlandi hafa verið gagnrýnd harðlega fyrir andstöðu sína við samkynhneigð.

Pakhomov segir samkynhneigða velkomna á Ólympíuleikana á meðan þeir virði landslög og „þröngvi ekki kynhneigð sinni upp á aðra“.

Fréttamaður BBC fullyrðir að hann hafi heimsótt öldurhús samkynhneigðra í borginni kvöldinu áður en viðtalið við borgarstjórann fór fram. Fæstir gesta hafi viljað láta mynda sig af ótta við fordæmingu, en viðmælandi BBC segir að minnsta kosti tvær krár fyrir samkynhneigða vera í borginni.

Borgarstjórinn dró þó aðeins í land þegar fréttamaðurinn ítrekaði spurningu sína, hvort að það væru í alvörunni engir samkynhneigðir í Sochi. „Ég er ekki viss, en ég þekki allavega enga.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×