Innlent

Jónína Ben dæmd í 30 daga fangelsi

Hefur verið dæmd í 30 daga fangelsi fyrir ölvunarakstur.
Hefur verið dæmd í 30 daga fangelsi fyrir ölvunarakstur. visir/stefán
Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í morgun Jónínu Benediktsdóttur í 30 daga fangelsi fyrir ölvunarakstur og var hún svipt ökurétti ævilangt.

Jónína var ákærð fyrir að hafa ekið undir áhrifum áfengis þann 18. júní árið 2013 og mældist vínandamagn í blóði 1,50%. Athafnakonan mun hafa ekið frá Reykjavíkurflugvelli og ekið á járngrind við enda bílastæðisins.

Í niðurstöðu dómsins segir að framburður ákærðu um atvik málsins hafi ekki verið stöðugur að öllu leyti. Þannig hafi Jónína borið við yfirheyrslu hjá lögreglu að bifreiðin hefði rekist utan í járngrindina þegar hún ók inn í bifreiðastæðið.

Hún hefði eftir þetta farið inn í flugstöðina, keypt þar áfengi og drukkið eitthvað af því þar inni. Við aðalmeðferð málsins kvað ákærða það hafa rifjast upp fyrir sér að hún hefði ekið á járngrindina eftir að hún kom út úr flugstöðinni og hún kannaðist ekki við að hafa neytt áfengis þar inni.

Þykir hafið yfir skynsamlegan vafa að Jónína hafi verið undir áhrifum áfengis þegar hún ók bifreiðinni úr bifreiðastæði við Reykjavíkurflugvöll. „Verður ákærða sakfelld fyrir þá háttsemi sem henni er gefin að sök í ákæru og er háttsemin þar rétt færð til refsiákvæða,“ segir í dóminum.

Jónínu er gert að greiða málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, 188.250 krónur, og þóknun verjanda síns á rannsóknarstigi málsins, 37.650 krónur.  Þá ber henni að greiða i 42.934 krónur í annan sakarkostnað.

Jónína vildi ekki tjá sig um málið þegar fréttastofa hafði samband.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×