Handbolti

Hedin neitar að gefast upp

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Robert Hedin á hliðarlínunni í dag.
Robert Hedin á hliðarlínunni í dag. Mynd/Daníel
Robert Hedin, landsliðsþjálfari Noregs, var gagnrýndur eftir tap hans manna gegn Íslandi á fyrsta leik EM í handbolta í dag.

Ísland vann, 31-26, eftir að hafa náð sex marka forystu á tíundu mínútu leiksins. Norðmenn náðu mest að minnka muninn í þrjú mörk eftir það.

Þrjú lið af fjórum komast áfram í milliriðlakeppnina en Hedin sagðist eftir leik enn vongóður um að Norðmenn kæmust áfram.

„Við erum ekki búnir að mála okkur út í horn,“ sagði Hedin við TV2 í Noregi. „Við eigum enn góðan möguleika gegn bæði Ungverjalandi og Spáni.“

„Þetta verður bara erfiðara og erfiðara en við verðum að halda áfram að berjast og reyna að vinna næstu tvo leiki. Við munum sjá hvar við stöndum eftir þá. Við munum gera okkar besta,“ sagði skyttan Harald Reinkind eftir leikinn en hann skoraði sex mörk í dag.

Hedin var nokkuð gagnrýndur af sérfræðingum norska sjónvarpsins. Bent Svele hjá TV2 sagði að Hedin hefði gert dýrkeypt mistök í lok leiksins. „Robert Hedin gerði slæm mistök með því að nota ekki Erlend Mamelund í sókninni,“ sagði Svele.

Norðmenn mæta næst heimsmeisturum Spánverja á miðvikudaginn en Ísland mætir þá Ungverjalandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×