Handbolti

Sverre: Kannski óþarfi að fá rautt í hverjum leik

Henry Birgir Gunnarsson í Álaborg skrifar
Sverre fær sér sæti í stúkunni eftir að hafa fengið að líta rauða spjaldið.
Sverre fær sér sæti í stúkunni eftir að hafa fengið að líta rauða spjaldið. mynd/daníel
"Sá rauði segir bara fínt. Rauða spjaldið var í stíl við búninginn," sagði varnartröllið Sverre Andreas Jakobsson brosmildur að venju eftir sigurinn á Noregi.

Sverre var vikið þrisvar sinnum af velli og fékk því að líta rauða spjaldið er þrettán mínútur lifðu leiks.

"Ég er mjög glaður. Mér fannst við leggja línurnar strax í byrjun. Margir hafa efast um varnarleikinn okkar en við sýndum strax í upphafi að við vorum allavega komnir til þess að berjast og gefa allt í þetta.

"Persónulega hafði ég engar áhyggjur af varnarleiknum fyrir mót en þessi gagnrýni vill oft skjóta upp kollinum fyrir stórmót. Ég skil það líka vel. Þá er það okkar að svara. Það kveikir í okkur og hvetur okkur áfram þegar við erum gagnrýndir. Það er bara vel þegið að sem flestir gagnrýni okkur," sagði Sverre og hló dátt.

"Við fengum Bjögga með okkur og þetta gekk allt vel. Auðvitað misstum við aðeins dampinn í síðari hálfleik en það er eins og gengur. Byrjunin lagði grunninn að sigrinum.

"Geðveikin var í gangi og betra að klára þetta á fullu en að vera í einhverjum dúkkulísuleik. Það er kannski óþarfi að fá rautt spjald í hverjum leik en maður gengur eins langt og má."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×