Handbolti

Guðjón: Menn mega ekki kikna undan öllu lofinu

Henry Birgir Gunnarsson í Álaborg skrifar
„Ég held að þessi leikur verði aðeins erfiðari en Noregsleikurinn. Þeir eru með hörkulið. Vel mannað og marga menn sem spila í góðum liðum,“ sagði landsliðsfyrirliðinn Guðjón Valur Sigurðsson.

Ungverjar eru án síns besta manns, Laszlo Nagy, og Guðjón segir að það veiki liðið mikið.

„Það skiptir gríðarlegu máli. Hann er einn besti leikmaður heims,“ segir Guðjón en bendir á að Ungverjar eigi samt tvo fína menn til að leysa hann af.

„Hvorugur þeirra er hálfur á við Nagy. Hann er líka frábær varnarmaður og munar því um minna hjá þeim.“

Guðjón Valur segist vera löngu hættur að velta sér upp úr tapinu á ÓL í London gegn Ungverjum. Hann notar það því ekki til þess að peppa sig upp fyrir leikinn.

„Þetta var erfitt og maður sættir sig ekkert við. Ég get samt ekki breytt því. Eina sem skiptir máli núna er þessi leikur.“

Fyrirliðinn segir að menn fari ekkert fram úr sjálfum sér. Þeir taki alltaf einn leik fyrir í einu.

„Sigur á morgun þýðir að við förum áfram með stig. Það er það sem skiptir máli. Við erum ekkert með tvö tækifæri. Við ætlum að taka þetta af fullum krafti. Vinna leikinn og svo sjáum við hvað setur.“

Strákarnir hafa fengið mikið lof fyrir Noregsleikinn og Guðjón segir að það geti verið hættulegt.

„Ég hef mestar áhyggjur af því að ef menn verða of ánægðir of lengi og kikna undan öllu lofinu. Það er nákvæmlega þá sem menn þurfa að koma sér í burtu og byrja að hugsa um næsta leik. Mér líður aldrei vel í svona umhverfi. Þá vil ég koma mér í burtu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×