Handbolti

Arnór: Mun spila eins mikið og ég get

Henry Birgir Gunnarsson í Álaborg skrifar
„Það er smá stífleiki en ekkert alvarlegt,“ sagði skyttan Arnór Atlason sem eyddi æfingu dagsins á þrekhjóli. Hann er að glíma við meiðsli eins og fleiri leikmenn.

Það duldist engum að Arnór var ekki heill heilsu í leiknum í gær en hann gaf engu að síður allt sem hann átti.

„Ég stífnaði aðeins upp eftir fyrsta leikinn og það ágerðist síðan. Það er lítið við því að gera,“ sagði Arnór og brosti.

Lukkan hefur ekki beint leikið við hann. Hann meiddist skömmu fyrir mót en náði sér góðum á elleftu stundu og komst með. Hann nær svo einum leik í Álaborg áður en annað tekur við.

„Þetta er bara dag frá degi. Við gerum okkar besta til að vera klárir í hvern leik. Ég þarf að ræða við lækna og sjúkraþjálfara áður en ég veit hvað ég spila mikið. Ég spila samt eins og ég get.“

„Spánverjar eru heimsmeistarar. Þetta er rosamikilvægur leikur og hægt að líta á hann sem fyrsta leik í milliriðli í raun og veru. Þetta verður gaman og vonandi verður áfram fullt hús af Íslendingum.“

Viðtalið við Arnór í heild sinni má sjá hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×