Handbolti

Geir Sveinsson ráðinn þjálfari Magdeburg

Stefán Árni Pálsson skrifar
Íslenskir þjálfarar hafa náð ótrúlega langt í sínu fagi.
Íslenskir þjálfarar hafa náð ótrúlega langt í sínu fagi. mynd/heimasíða Magdeburg
Handknattleiksþjálfarinn Geir Sveinsson hefur verið ráðinn þjálfari Magdeburg í þýsku úrvalsdeildinni í handknattleik. Hann gerir tveggja ára samning við félagið og tekur við af Uwe Jung Andreas eftir tímabilið.

Geir var kynntur til leiks á blaðamannafundi hjá félaginu nú síðdegis.

Magdeburg er risalið í þýska handboltanum en liðið er í 8. sæti deildarinnar.

Geir hefur verið þjálfari Bregenz í austurrísku úrvalsdeildinni síðustu tvö tímabil en áður þjálfaði hann Gróttu og Val.

Geir á að baki fjöldann allan af landsleikjum og var hann fyrirliði landsliðsins í mörg ár. Sem leikmaður lék hann með Val, Avidesa á Spáni, Montpellier á Frakklandi og Wuppertal í Þýskalandi.

Alfreð Gíslason þjálfaði Magdeburg á sínum tíma eða frá árinu 1999-2006.

Ólafur Stefánsson lék með liðinu um áraraðir og vann marga titla undir stjórn Alfreð. Arnór Atlason, Björgin Páll Gústafsson og Sigfús Sigurðsson hafa einnig leikið með Magdeburg.

Magdeburg lýsti því yfir á dögunum að félagið vildi fá þjálfara líkan Alfreð Gíslasyni en Alfreð og Geir léku lengi vel saman hjá íslenska landsliðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×