Handbolti

Ísland með eitt stig í milliriðilinn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/AFP
Ungverjaland og Noregur skildu jöfn, 26-26, í lokaleik B-riðils á EM í handbolta. Þar með er ljóst að Ísland fer í milliriðlakeppnina í Herning með eitt stig, rétt eins og Ungverjaland.

Norðmenn þurftu á sigri að halda í dag og eru því úr leik. Ungverjar, sem leiddu lengst af, fögnuðu því jafnteflinu vel og innilega í leikslok.

Ungverjaland var með frumkvæðið lengst af í leiknum og þriggja marka forystu í hálfleik, 16-13. Norðmenn gáfust þó aldrei upp og voru aldrei langt undan.

Ungverjar höfðu tveggja marka forystu, 26-24, þegar tvær mínútur voru til leiksloka en misstu þá mann af velli.

Steffen Berg Løkkebø minnkaði þá muninn í eitt mark og Håvard Tvedten jafnaði svo metin með ótrúlegu marki eftir að Ungverjar töpuðu boltanum.

Staðan var því jöfn þegar tæp hálf mínúta var eftir og Ungverjar héldu í sókn. Þeim dugði jafntefli og náðu að hanga á því í lokasókninni þó svo að það hefði staðið tæpt. Norðmenn voru grátlega nálægt því í tvígang að stela boltanum en allt kom fyrir ekki.

Mate Lekai skoraði sjö mörk í leiknum og var markahæstur Ungverja. Tvedten skoraði sjö mörk fyrir Noreg og Kristian Kjelling sex.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×