Handbolti

Guðjón Valur með hundrað prósent skotnýtingu í öðrum leiknum í röð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Vísir/Daníel
Guðjón Valur Sigurðsson, fyrirliði íslenska landsliðsins í handbolta, nýtti öll sjö skotin sín í sigrinum á Austurríki í kvöld en þetta var fyrsti leikur strákanna okkar í milliriðli eitt á Evrópumótinu í handbolta í Danmörku.

Guðjón Valur var þar með með hundrað prósent skotnýtingu í öðrum leiknum í röð en hann skoraði einnig úr öllum sjö skotum sínum í leiknum á móti heimsmeisturum Spánverja í lokaleik Íslands í riðlakeppninni.

Guðjón Valur nýtti einnig þrjú síðustu skotin sín í jafnteflisleiknum á móti Ungverjum og hefur þar með skorað úr 17 síðustu skotum sínum á Evrópumótinu. Sjö af þessum sautján skotum hafa komið af vítapunktinum.

Guðjón Valur er með frábæra skotnýtingu á EM í Danmörku en hann hefur skorað úr 88 prósent skota sinna. Hér fyrir neðan má sjá skotnýtingu hans eftir leikjum á Evrópumótinu.

Skotnýting Guðjóns Vals Sigurðssonar í leikjum Íslands á EM 2014:

Á móti Noregi: 9/2 mörk í 11/3 skotum (82 prósent)

Á moti Ungverjalandi: 5/1 mörk í 7/1 skotum (71 prósent)

Á móti Spáni: : 7/3 mörk í 7/3 skotum (100 prósent)

Á móti Austurríki: : 7/3 mörk í 7/3 skotum (100 prósent)

Samtals: 28/9 mörk í 32/10 skotum (88 prósent)


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×