Handbolti

Arnór gæti náð EM

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Barátta við tímann. Arnór þarf að fara vel með sig næstu daga.fréttablaðið/valli
Barátta við tímann. Arnór þarf að fara vel með sig næstu daga.fréttablaðið/valli fréttablaðið/valli
„Þetta verður mjög tæpt en ég er samt bjartsýnn á að þetta hafist,“ sagði landsliðsmaðurinn Arnór Atlason aðspurður um hvort hann komist með landsliðinu á EM í janúar.

Arnór meiddist á æfingu með félagsliði sínu, St. Raphael, á dögunum. Óttast var að hann hefði rifið vöðva aftan í kálfanum. Svo reyndist ekki vera en hann er tognaður.

Félag hans vill eðlilega að hann hvíli yfir EM en mótið hefur verið gulrótin hans Arnórs lengi og hann mun því gefa þessu séns allt til enda. Arnór segir að hann sé ekki einn um að vera bjartsýnn, sjúkraþjálfar landsliðsins séu það einnig.

„Það var mikill léttir að komast að því að ekkert væri rifið. Engu að síður mun ég ekki geta æft með liðinu strax og klárlega ekki fara með liðinu í æfingaleikina í Þýskalandi. Ég mun koma inn síðustu vikuna fyrir EM og þá sjáum við hversu góður ég verð.“

Arnór verður í stífri sjúkraþjálfun hjá sjúkraþjálfurum landsliðsins og góðvinur hans sem er sjúkraþjálfari mun sinna honum er hann fer til Akureyrar yfir jólin.

„Nú er bara að hugsa vel um sig og passa að ekkert klikki. Ég mun mæta á æfingar með strákunum og gera það litla sem ég get. Ef ég fer samt of snemma af stað þá er mótið farið hjá mér. Þannig að það þarf að fara vel með meiðslin og síðan vona það besta. Ég ætla mér á EM og er bjartsýnn á að það takmark muni hafast hjá mér.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×