Handbolti

Þarf vélmennið aftur að fara í viðgerð?

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Alexander Petersson.
Alexander Petersson.
Óvissa er um þátttöku Alexanders Petersson á EM í janúar. Þrálát axlarmeiðsli eru að plaga Alexander og mun það væntanlega liggja fyrir í næstu viku hvort hann treysti sér til að spila.

Sömu axlarmeiðsli urðu þess valdandi að hann missti af HM í janúar. Aðstæður nú eru mjög svipaðar og þær voru fyrir um ári.

Alexander er að spila fyrir félag sitt, Rhein-Neckar Löwen, og að spila vel. Í desember í fyrra átti hann öflugan leik og tryggði sínu liði sigur skömmu áður en hann dró sig út úr hópnum.

Hann er nýbúinn að eiga stórleik gegn Kiel og tryggja Löwen sigur gegn meisturunum. Það er aftur á móti eitt að spila vel í einstaka leik en annað að spila jafnvel átta leiki á tveimur vikum með landsliðinu.

Þessi meiðsli sem Alexander er að glíma við hafa plagað hann lengi. Hann tók þátt á EM árið 2012 en varð að hætta þar sem hann var ekki í lagi.

Á HM árið 2011 var hann einnig langt frá því að vera heill heilsu en píndi sig áfram líkt og oft áður. Fyrir síðasta mót tók skynsemin völdin hjá honum.

„Hingað til hef ég hugsað til skemmri tíma og oft tekið þátt í stórmótum og barist við meiðsli á sama tíma. Þetta er mjög erfið ákvörðun en ég tel að ég muni koma sterkari til baka. Jafnvel vélmenni þurfa að fara í viðgerð,“ segir Alexander við Fréttablaðið er hann dró sig út úr hópnum fyrir ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×