Bakþankar

Bliki í þrjár klukkustundir

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Það er erfitt að útskýra það og ég hef á tilfinningunni að maður megi ekki segja það. Maður gæti verið stimplaður þjóðernissinni, orð sem fólk hefur ólíkan skilning á en yfirleitt neikvæðan, eða þá væminn. En stundum er maður ótrúlega stoltur yfir því að vera Íslendingur.

Í rigningu, roki og skítakulda var flautað til loka venjulegs leiktíma á Laugardalsvelli á fimmtudagskvöldið. Karlalið Breiðabliks í knattspyrnu hafði unnið 1-0 sigur á sterkasta liði Kasakstans og jafnaði metin í einvígi liðanna eftir 1-0 tap ytra. Leikmenn réðu ráðum sínum, klæddu sig í úlpur og hlustuðu á þjálfara sinn enda framlenging fram undan. Fólk í stúkunni nuddaði lærin vegna kuldans, brosti vandræðalega hvert til annars og vissi ekki almennilega hvernig það átti að haga sér. Þá byrjaði lag að hljóma. Íslenskara gat það ekki verið. Þorparinn með Pálma Gunnars.

Ég veit ekki hvað það var en í nokkrar sekúndur leið mér yndislega í skítakuldanum á Laugardalsvelli. Fulltrúar litla Íslands áttu í fullu tré við frambærilegasta atvinnumannalið sautján milljóna manna þjóðar úr fjarlægum heimi. Týpísk íslensk minnimáttarkennd, en hvað sem því líður var tilfinningin góð.

Þótt „aðeins“ 2.500 manns hafi mætt í Dalinn á risaleikinn þá létu vallargestir vel í sér heyra og eftir því sem spennan og vonin varð meiri fjölgaði Blikunum. Jú, einhverjir bættust í hópinn þegar byrjað var að hleypa frítt inn en eftir því sem áhorfendur urðu stoltari af strákunum inni á vellinum leyfðu þeir sér að hrópa og kalla í takt við harðasta kjarna stuðningsmannanna. Í nokkrar mínútur studdu allir vallargestir þá grænu og hvítu (svörtu). Á kvöldi sem þessu eru nefnilega allir íslenskir knattspyrnuunnendur Blikar.

Svo fór að Blikar urðu að játa sig sigraða eftir dramatíska vítaspyrnukeppni. Hver Blikinn á fætur öðrum reyndi sig gegn markverði gestanna sem skellti í lás. Hetjulegri baráttu gegn atvinnumönnunum úr hinum enda álfunnar var lokið. Blikar lutu höfði, svekkelsið var mikið en innst inni vissu leikmennirnir og allir aðrir á Laugardalsvelli að Blikar höfðu staðið sig vel. Leikmennirnir voru stoltir þótt hundfúlir væru. Sömu sögu var að segja um stolta landa þeirra í stúkunni óháð því hvaða lið þeir allajafna hvetja til dáða.


Tengdar fréttir

Hvað finnst þér um byssur?

Ferðalög til útlanda eru sjaldan jafnvel heppnuð og þegar maður sækir góða vini heim. Á framandi stöðum er gott að eiga góða að.

Hvers virði eru launin?

Eru launin ekki miklu lægri?“ er spurning sem ég fæ reglulega frá fólki þegar það heyrir að ég hafi sagt upp starfi mínu sem byggingaverkfræðingur og sinni nú íþróttafréttamennsku.






×