Bíó og sjónvarp

31 þáttur á Stöð 2 tilnefndur til Emmy-verðlaunanna

Breaking Bad
Breaking Bad
Listi yfir tilnefningar til Emmy-verðlaunanna hefur nú verið opinberaður. Verðlaunin verða veitt í september, en að vanda er stór hluti þáttanna sem eru tilnefndir sýndur á Stöð 2.

Breaking Bad fær ellefu tilnefningar, þar á meðal fyrir bestu leikara í aðal- og aukahlutverkum. Eins fyrir besta dramaþáttinn, handritsgerð og leikstjórn. Þættirnir fjalla um efnafræðikennara í framhaldsskóla sem snýr sér að glæpastarfsemi til að sjá fjölskyldunni sinni farborða. Þættirnir hafa áður hlotið sjö Emmy-verðlaun.

Game of Thrones fær einnig ellefu tilnefningar, þar á meðal í flokki dramaþátta, leikara í aukahlutverkum, handritsgerðar og búningahönnunar. Um er að ræða fantasíu sem fjallar um sjö fjölskyldur sem berjast um yfirráð yfir hinu goðsögulega landi Westeros. Þættirnir hafa áður hlotið sex Emmy-verðlaun.

Homeland hlýtur tíu tilnefningar, þar á meðal í flokki leikara og leikkvenna í aðal- og aukahlutverkum, leikstjórnar og handritsgerðar. Þátturinn hefur áður hlotið sex Emmy-verðlaun.

Mad Men hlýtur einnig tíu tilnefningar, meðal annars í flokki leikara og leikkvenna í aðal- og aukahlutverkum.

Modern Family fær líka tíu tilnefningar en þátturinn hefur hlotið mikið lof gagnrýnenda frá upphafi. Flestir hinna fullorðnu leikara eru tilnefndir fyrir frammistöðu sína í þáttunum.

Stöð 2 sýnir 31 af þeim þáttum sem tilnefndir eru til verðlaunanna. Fyrir utan þá sem taldir voru upp hér að ofan má nefna The Big Bang Theory, Boardwalk Empire og Louie, sem hver um sig fær sex tilnefningar, Girls og Veep, sem fá fá fimm tilnefningar og Glee, sem fær fjórar. Auk þess hljóta þættirnir Arrested Development, The Newsroom, How I Met Your Mother, Nashville, So You Think You Can Dance, Two And A Half Men og 2Broke Girls tilnefningar, svo einhverjir séu nefndir.

Nánari upplýsingar um Emmy-tilnefningarnar má finna á heimasíðu hátíðarinnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×