Skoðun
Björn Jón Bragason sagnfræðingur

Níutíu milljónir í óþarfa

Björn Jón Bragason skrifar

Á síðasta fundi umhverfis- og samgönguráðs Reykjavíkurborgar var samþykkt að verja hvorki meira né minna en níutíu milljónum króna til að breyta einum stuttum vegarspotta sem enginn býr við, en um er að ræða Sæmundargötu, fyrir framan aðalbyggingu Háskóla Íslands. Til stendur að útbúa þar göngu- og hjólreiðastíg fyrir umrædda fjárhæð.

Þessi forgangsröðun verður að teljast óskiljanleg á sama tíma og viðhaldi gatna og gangstétta er varla sinnt í borginni, en niðurskurður til þess málaflokks hefur verið mikill á undanförnum árum. Við Sæmundargötu býr enginn og umferð þar er sáralítil. Gatan er umfram allt innkeyrsla á bílastæði við Háskólann.

Það getur ekki verið slíkt forgangsmál að þrengja þessa götu, enda liggja ekki fyrir neinar mælingar á fjölda bíla sem um götuna fara eða meðalhraða. Þá er mér ekki kunnugt um að nein slys hafi átt sér stað við þessa götu. Kostnaðurinn er í ofanálag yfirgengilegur. Hluti af þessum áformum er að taka 350 bílastæði sunnan götunnar án þess að fyrir liggi hvar stúdentar og starfsfólk Háskólans eigi að leggja bílum sínum.

Hefði ekki verið nær að leyfa útsvarsgreiðendum í Reykjavík að njóta góðs af þessum níutíu milljónum í formi lægri skatta í stað þess að fleygja þeim í óþarfa framkvæmd? Stefna Jóns Gnarr og Samfylkingarinnar hefur snúist um að hækka allar álögur á borgarbúa, skerða grunnþjónustu og hætta að sinna viðhaldi eigna en stórauka þess í stað kostnað við yfirstjórn og eyða fjármunum í annað bruðl á borð við Sæmundargötuævintýrið, stuttan vegarspotta sem mun um ókomin ár verða minnisvarði um óstjórn meirihluta Samfylkingarinnar og hins svokallaða Besta flokks.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Skoðun

Sjá meira