Innlent

Undrabarn varð yngsti stórmeistari heims

Svavar Hávarðsson skrifar
Wei Yi er fjórði yngsti stórmeistari sögunnar, aðeins 13 ára gamall.
Wei Yi er fjórði yngsti stórmeistari sögunnar, aðeins 13 ára gamall. fréttablaðið/valli

Kínverska skákundrið Wei Yi tryggði sér þriðja og síðasta áfanga að stórmeistaratitli eftir áttundu umferð N1 Reykjavíkurskákmótsins í Hörpu á mánudagskvöld. Wei Yi, sem er aðeins 13 ára gamall, er því yngsti stórmeistari heims í dag. Wei Yi varð jafnframt fjórði yngsti stórmeistari allra tíma, þegar næststigahæsti keppandi mótsins, stórmeistarinn Maxime Vachier-Lagrave frá Frakklandi, gaf skák sína eftir mikla baráttu við undrabarnið.

Skákmeistarinn ungi var í hópi efstu manna á mótinu eftir áttundu umferð en sigurmöguleikar hans eru vart raunhæfir eftir jafntefli gegn pólska stórmeistaranum Grzegorz Gajewski í gærkvöldi. Árangur hans er engu að síður glæsilegur; hann hefur unnið sex skákir til þessa, gert tvö jafntefli og aðeins tapað einni og hefur hann því sjö vinninga ásamt hópi skákmeistara. Efstir á mótinu fyrir lokaumferðina í dag eru þeir Wesley So og Pavel Eljanov. Skák þeirra ræður því úrslitum um hver sigrar á mótinu en sest verður að tafli klukkan 16.30 í Hörpu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×