Skoðun
Lýðræði
Björn Jón Bragason
sagnfræðingur

Gnarr hættir sér í Grafarvog

Björn Jón Bragason skrifar

Borgarstjórinn í Reykjavík, Jón Gnarr, boðaði til fundar með íbúum Grafarvogs hinn 29. janúar sl. en tilgangur fundarins var að kynna sýndarlýðræði það sem svokallaður Besti flokkur og Samfylkingin hafa innleitt í borginni og er ekki ósvipað hugmyndafræði keisaranna í Róm til forna – brauð og leikar. Borgararnir fá það á tilfinninguna að þeir ráði einhverju en í reynd er aðeins um örfáar milljónir að ræða.

Fundarmenn spurðu borgarstjórann beinskeyttra spurninga, enda hefur framkoma borgaryfirvalda gagnvart Grafarvogsbúum verið til skammar á umliðnum misserum og mikil reiði undirliggjandi meðal íbúa hverfisins. Í þessu sambandi nægir að nefna sameiningu skóla í óþökk íbúa og samning borgarinnar við ríkið um að ekki verði ráðist í neinar samgöngubætur næstu tíu árin. Jón svaraði fáu, þrátt fyrir að embættismenn lægju á eyrum hans með ábendingar. Honum virtist helst liggja á hjarta að „fá skósmiðinn aftur inn í hverfið“ svo vitnað sé orðrétt í ræðu hans.

Undirritaður var á fundinum og spurði borgarstjórann hvort hann væri stoltur af því að hafa hækkað skatta og gjöld á heimilin í borginni upp í topp og margfaldað kostnað við yfirstjórn á sama tíma og grunnþjónustan væri stórlega skert. Annar fundarmaður benti á bruðlið á fleiri stöðum, þar sem ónýtir húskofar í miðbæ og Vesturbæ hefðu verið keyptir fyrir á annan milljarð króna að ógleymdum kostnaði við endurgerð þeirra. Ekki skorti fjármuni þegar kæmi að gæluverkefnum Jóns Gnarr, en borið við fjárskorti þegar sinna þyrfti brýnustu grunnþjónustu, svo sem sorphirðu og lýsingu borgarinnar. Ýmsar fleiri beinskeyttar spurningar bárust borgarstjóranum, enda af mörgu að taka.

Eftir að hafa komið heim af fundinum skrifar Jón Gnarr færslu á Fésbókarsíðu sína og sakar íbúa Grafarvogs um að leggja sig í „einelti“ – og ekki nóg með það – hann sakar þá um að beita sig „ofbeldi“. Er það ofbeldi að spyrja áleitinna spurninga þegar mikil réttmæt reiði er undirliggjandi? Er það einelti að krefja borgarstjórann í Reykjavík svara við málefnum er varða borgarana? Er ekki kominn tími til að borgarstjórinn í Reykjavík hugsi sinn gang?Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Skoðun

Sjá meira