Skoðun

Rétt skal vera rétt

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir skrifar
Einar Karl Haraldsson gerir mig að umtalsefni í grein sem birtist í Fréttablaðinu sl. laugardag. Honum mislíkar að mér finnist skjóta skökku við að þjóðkirkjan gefi út yfirlýsingar um að hún hyggist fara í söfnun fyrir tækjakaupum á Landspítalanum nokkrum dögum eftir að kirkjan hafði beitt sér af mikilli hörku fyrir auknum fjárveitingum til sjálfrar sín undir lok fjárlagagerðarinnar í desember sl. Ég fagnaði því um leið að kirkjan hygðist bæta sér í hóp þeirra fjölmörgu félagasamtaka sem leggja heilbrigðisstofnunum lið með söfnun fyrir mikilvægum tækjakaupum.

Framlög frjálsra félagasamtaka til tækjakaupa hafa, þótt hljótt hafi farið, skipt sköpum fyrir tækjakost heilbrigðiskerfisins. Alþingi hefur samþykkt 900 m.kr. fjárveitingu til tækjakaupa á Landspítalanum á næsta ári og velferðarráðherra hefur látið vinna áætlun um reglubundnar fjárveitingar til tækjakaupa í heilbrigðiskerfinu. Hér eftir sem hingað til verður þó mikil þörf fyrir velvild frjálsra félagasamtaka.

Einari Karli er að sjálfsögðu frjálst að lýsa viðhorfum sínum. Mér líkar þó illa að hann blekki lesendur til að gera mig tortryggilega. Kannski hefur hann ekki ætlað sér að blekkja neinn en hann hefur a.m.k. ekki kynnt sér staðreyndir. Hann segir í grein sinni: "Sigríður Ingibjörg Ingadóttir hefur verið áhrifamanneskja í fjárlaganefnd á þessu kjörtímabili og átt sinn þátt í ákvörðunum um að hlunnfara þjóðkirkjuna árum saman."

Hið rétta er að ég sat í rúmlega eitt ár í fjárlaganefnd og var formaður hennar frá 1. október 2011 til haustsins 2012. Þegar ég var formaður lagði meirihluti nefndarinnar til auknar fjárveitingar til þjóðkirkjunnar. Við hækkuðum sóknargjöld til þjóðkirkjunnar um 61,2 m.kr., fjárveitingar til kirkjumálasjóðs um 8,3 m.kr. og jöfnunarsjóðs sókna um 11,5 m.kr. Fjárveiting til þjóðkirkjunnar var því hækkuð um 81 milljón króna í fjárlagagerðinni þann tíma sem ég sat í og stýrði fjárlaganefnd. Þá studdi ég 45 m.kr. viðbótarfjárveitingu til kirkjunnar í fjárlögum 2013.

Rétt skal vera rétt!


Tengdar fréttir

Biskup í góðum samhljómi

Það eru tíðindi þegar forystukona Samfylkingarinnar í Reykjavík telur sig ekki hafa annað þarfara að gera en að veitast að Agnesi Sigurðardóttur, biskupi Íslands, fyrir hugmynd hennar um að þjóðkirkjan beiti sér fyrir landssöfnun í þágu tækjakaupa til Landspítalans.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×