Erlent

Þóttist eiga kynlífsmyndband af Justin Bieber

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Justin Bieber og Selena Gomez voru par þar til í sumar.
Justin Bieber og Selena Gomez voru par þar til í sumar. mynd/getty
Samskiptavefurinn Facebook hefur höfðað mál á hendur manni sem sagður er hafa skipulega og ítrekað birt hlekki á vefnum sem innihalda áttu kynlífsmyndband af popparanum Justin Bieber og fyrrverandi unnustu hans, Selenu Gomez.

Notendur sem smelltu á hlekkinn enduðu inni á vefsíðu þar sem maðurinn, Christopher Peter Tarquini, fékk greiðslu fyrir hvern smell. Þar að auki var vefslóðinni deilt sjálfkrafa á Facebook-síðum þeirra sem smelltu.

Facebook segir Tarquini vera svokallaðan „síbrotaspammara“ sem eytt hafi síðustu fimm árum í að þróa tölvuforrit sem búa til villandi skilaboð, myndir og hlekki á samskiptavefnum, en spammari er notað yfir þá sem ítrekað deila rafrænum ruslpósti.

Tarquini hélt iðju sinni áfram þrátt fyrir viðvaranir Facebook og því var ákveðið að höfða mál. Facebook fer fram á bætur og krefst fyrirtækið þess einnig að Tarquini verði framvegis óheimilt að nota vefsíðuna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×