Handbolti

Sigfús seldi silfrið út af skuldum

Sigfús með medalíuna góðu. Hún er nú í vörslu HSÍ.
Sigfús með medalíuna góðu. Hún er nú í vörslu HSÍ. mynd/vilhelm
Ráðgátan um hver af strákunum okkar hafi selt silfurverðlaun sín frá Ólympíuleikunum í Peking árið 2008 er leyst. Það var línumaðurinn Sigfús Sigurðsson sem seldi medalíuna sína.

"Ég seldi silfrið. Ég gerði það vegna skulda. Það sem ég hef unnið mér inn á íþróttaferlinum verður ekki mælt í medalíum eða bikurum. Árangurinn er mældur í þeirri reynslu og lífi sem ég hef átt," segir Sigfús í ítarlegu viðtali við DV í dag.

"Þetta var gríðarlega erfið ákvörðun. Medalían hefur mikið sögulegt gildi og hefur erfðagildi fyrir fjölskyldu mína. Ég sá enga aðra leið út. Þegar búið var að loka á mig hjá bankanum og ég var búinn að fá frest hjá sýslumanni tók ég þessa ákvörðun," segir Sigfús enn fremur í viðtalinu.

Sigfús segir að skuldir hafi hlaðist upp þegar ferlinum lauk og hann hafi ekki lengur haft sömu tekjur og hann hafði í atvinnumennskunni.

"Ég tók þá erfiðu ákvörðun að í staðinn fyrir að ég yrði gjaldþrota, og yrði að sitja það af mér í þrjú eða fimm ár, að fara með mína medalíu, fékk veð í henni og notaði þann pening til að borga af þessu láni sem var við að falla á foreldra mína. Ég borgaði tveimur klukkutímum áður en ég átti að mæta hjá sýslumanni."

Það kemur einnig fram í viðtalinu að HSÍ hafi komið að málum og sé nú með medalíuna.

"Ég talaði við formann HSÍ sem fór og náði í medalíuna [úr safnarabúðinni. innsk. blm] og ég er honum mjög þakklátur fyrir það. Medalían er hjá þeim í augnablikinu."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×