Fótbolti

Eiður Smári: Sveppi er fáviti

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
„Menn verða að vera viðbúnir því sem getur gerst í fótboltaleik og þetta er því miður hluti af þessu,“ sagði Eiður Smári Guðjohnsen um rauða spjaldið sem Ólafur Ingi Skúlason fékk í umspilsleiknum gegn Króatíu á Laugardalsvelli í kvöld.

„Við náðum að aðlaga okkur nokkuð vel fannst mér, sérstaklega strax eftir rauða spjaldið því það þurfti strax að gera breytingu. Í heildina litið vorum við mjög skipulagðir og gáfum þeim lítið svæði. Þeir náðu ekki að skapa sér mikið. Það er gríðarlega mikilvægt að halda hreinu.“

„Það hefði verið nógu erfitt að halda hreinu ellefu á móti ellefu, hvað þá tíu á móti ellefu. Því eru þetta frábær úrslit og ef við náum að spila ellefu á móti ellefu úti í Króatíu þá er ég fullviss um að við getum strítt þeim.“

„Ég vil sem minnst tala um dómarann. Ég veit ekki hvort þetta hafi verið rétt rautt spjald en það má segja að öll vafaatriði hafi fallið með þeim. Við þurftum að hafa fyrir því að fá dæmdar aukaspyrnur, það fór mest í taugarnar á okkur,“ sagði Eiður Smári sem hugsar vini sínum Sverri Þór Sverrissyni (Sveppa) þegjandi þörfina fyrir að hafa lekið því í hádeginu að Eiður Smári byrjaði leikinn á bekknum.

„Sveppi er bara fáviti, það er ekkert flóknara en það.“

Viðtalið má sjá í heild sinni hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×