Innlent

Myglusveppur tvístraði fjölskyldunni

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Tólf ára gömul stúlka sem hefur hlotið mikið heilsufarslegt tjón af völdum myglusvepps sendi Kristjáni Möller, alþingismanni, bréf þar sem hún segist vera búin að fá nóg. Í bréfinu spyr hún hvort hún eigi ekki rétt á að búa hjá mömmu sinni og pabba, en myglusveppurinn tvístraði fjölskyldunni.

Grein sem hin tólf ára gamla Harpa Karen sendi inn á vefsíðuna Spyr.is um helgina hefur vakið nokkra athygli. Þar rekur stúlkan sögu fjölskyldu sinnar sem hlaut mikið tjón af því að búa í húsnæði sem er mikið sýkt af myglusvepp. Harpa býr nú hjá ömmu sinni en þrír aðrir fjölskyldumeðlimir deila einu svefnherbergi hjá vinafólki.

Harpa er með mikið ofnæmi fyrir sveppnum og því hafði hann gífurlega mikil áhrif á hana. Meðal annars fékk hún útbrot  um allan líkamann, magaverki, hausverki og sjóntruflanir. Auk þes hefur hún glímt við mikinn kvíða síðustu ár. Fjárhagserfiðleikar fjölskyldunnar vegna sveppsins hefur valdið henni miklum áhyggjum, en allt innbú heimilisins er ónýtt auk þess sem móðir hennar þurfti að hætta að vinna vegna veikindanna.

Reynsla fjölskyldu Hörpu verður höfð til hliðsjónar þegar þingsályktunartillaga um myglusvepp í húsum og tjóns af þeirra völdum verður tekið fyrir á alþingi á miðvikudag. Kristján Möller, þingmaður Samfylkingarinnar, er flutningsmaður tillögunnar. Hann segir ótrúlegt að ekki hafi verið ráðist í þessi mál fyrr. Það liggi fyrir að heilsufarslegt og fjárhagslegt tjón fólks sé gífurlegt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×