Íslenski boltinn

Þórður Steinar flytur til Danmerkur og yfirgefur Blikana

Stefán Árni Pálsson skrifar
Þórður Steinar Hreiðarsson
Þórður Steinar Hreiðarsson mynd / daníel
Varnarmaðurinn Þórður Steinar Hreiðarsson mun ekki leika með Breiðablik á næsta tímabili í Pepsi-deild karla í knattspyrnu en hann hefur ákveðið að flytja til Danmerkur.

Stjórn félagsins og leikmaðurinn hafa komist að samkomulagi um að leikmaðurinn yfirgefi Blikana og óvíst hvar hann muni leika á næsta tímabili.

Þórður Steinar lék 17 leiki með Blikum í sumar og var mikilvægur hlekkur í varnarlínu liðsins.

Breiðablik sendi frá sér yfirlýsingu á heimasíðu félagsins sem má lesa hér að neðan,

Yfirlýsing frá Breiðablik og Þórði Steinari Hreiðarssyni.

Knattspyrnudeild Breiðabliks og Þórður Steinar Hreiðarsson hafa komist að samkomulagi um að rifta leikmannasamningi sem í gildi er á milli félags og leikmanns vegna búferlaflutninga Þórðar Steinars erlendis.

Knattspyrnudeild Breiðabliks þakkar Þórði Steinari fyrir framlag hans og þjónustu við félagið undanfarin 2 og ½ ár og óskar honum alls hins besta í framtíðinni. Félagið er stolt af þeim framförum sem Þórður Steinar hefur tekið á meðan hann hefur verið leikmaður í Breiðablik.

Þórður Steinar þakkar Knattspyrnudeild Breiðabliks fyrir þann tíma sem hann var í röðum félagsins og þau tækifæri sem félagið hefur gefið honum. Öll umgjörð, aðstaða og allt í kringum þjálfunina og félagið hefur verið til fyrirmyndar og yfirgefur Þórður Steinar félagið með góðar minningar.

Samkomulag þetta er gert í bróðerni og óska báðir aðilar hvor öðrum alls hins besta í framtíðinni.

Knattspyrnudeild Breiðabliks og Þórður Steinar






Fleiri fréttir

Sjá meira


×