Innlent

Söfnuðu 6,5 milljónum fyrir sirkustjaldi

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Hægt verður að sjá íslenskan sirkus næsta sumar.
Hægt verður að sjá íslenskan sirkus næsta sumar. Myndir/Sirkus Ísland.
„Þetta er ótrúleg tilfinning. Þetta hófst með samstilltu átaki,“ segir fjölmiðlakonan Margrét Erla Maack, meðlimur Sirkus Íslands. Hópurinn hefur undanfarin misseri staðið fyrir söfnun til kaupa á sirkustjaldi og náði í kvöld takmarki sínu. Alls hafa safnast um 40 þúsund evrur, eða 6,5 milljónir króna sem verður varið til kaupa á glæsilegu sirkustjaldi. Það verður því íslenskur sirkus næsta sumar á Íslandi. Söfnunin fór fram hjá Karolina Fund.

„Við stofnuðum sirkusinn fyrir sex árum og höfum aðallega verið að sýna aðallega í leikhúsum sem hentar ekkert sérstaklega vel fyrir sirkus. Við vorum með tárin í augunum þegar við vorum að pakka niður eftir sirkussýningarnar í Vatnsmýrinni í sumar. Við ákváðum að ráðast í söfnun og að við höfum náð þessum áfanga er algjör draumur,“ segir Margrét.

„Það er allt annað að sýna sirkus í alvöru tjaldi þar sem er setið allan hringinn. Það er allt önnur upplifun en að sjá þetta á hefðbundnu sviði. Þetta er stór áfangi fyrir okkur og það verður mikið ævintýri að fara með sirkusinn um allt land næsta sumar.“

Allir þeir sem hétu 15 evrum eða meira í verkefnið fá miða á sýningu sirkusins næsta sumar. Það eru því fjölmargir nú þegar búnir að kaupa miðann sinn á sýningar Sirkus Íslands næsta sumar. Meðlimir Sirkus Íslands eru um 30 talsins og ætluðu nokkrir þeirra að koma saman í kvöld til að fagna þessum tímamótum. Sirkus Íslands áformar að fara víða um land næsta sumar. Samhliða sýningum verða haldin námskeið þar sem ungir sem aldnir geta fengið tækifæri til að læra og spreyta sig í sirkus.

Sirkus Íslands from Lee Nelson on Vimeo.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×