Innlent

Enn leitað að Stefáni Loga

Valur Grettisson skrifar
Húsið á Stokkseyri þar sem árásin átti sér stað.
Húsið á Stokkseyri þar sem árásin átti sér stað.
Enn er verið að leita að Stefáni Loga Sívarssyni, sem er grunaður um frelsissviptingu og hrottalega líkamsárás.

Umfangsmikil leit var gerð í gær á Suðurlandi en í tilkynningu frá lögreglu kemur fram að tveir hafi verið handteknir við þá aðgerð. Þeir verða yfirheyrðir í dag. Þegar hafa tveir verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald vegna þessa máls.

Fréttablaðið greindi frá því í dag að lögreglan var að leita að Stefáni Loga Sívarssyni vegna meintrar frelsissviptingar og hrottalegrar líkamsárásar sem á að hafa átt sér stað á Stokkseyri fyrir skömmu.

Lýsingarnar á ofbeldinu eru mjög grófar samkvæmt upplýsingum fréttastofu. Meðal annars mun þolandinn vera með áverka eftir svipuhögg á bakinu. Rótin að árásinni er sögð vera persónulegar deilur Stefáns við þolandann.

Tveir menn voru handteknir og úrskurðaðir í gæsluvarðhald vegna málsins í fyrradag. Annar þeirra er grunaður um að hafa tekið þátt í tveimur frelsissviptingum, þeirri á Stokkseyri og annarri á höfuðborgarsvæðinu, sem stóð skemur. Sá maður er 21 árs og er með fjölda dóma á bakinu, meðal annars fyrir ofbeldisfull rán.

Lögreglan segir í tilkynningu að hún muni ekki tjá sig um málið vegna rannsóknarhagsmuna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×