Íslenski boltinn

Knattspyrnugoðsögnin Hemmi Gunn

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Mynd/Samsett

Einn besti knattspyrnumaður Íslands frá upphafi, Hermann Gunnarsson, er fallinn frá. Allt frá því Hermann skoraði sitt fyrsta mark í efstu deild sumarið 1963 með Valsmönnum gegn Akureyri hefur hann glatt þjóðina innan sem utan knattspyrnuvallarins.

Hermann, sem fæddist þann 9. desember árið 1946, var fyrst og fremst Valsari. Hann ólst upp í Vesturbænum og var undir töluverðri pressu að ganga í raðir KR enda faðir hans mikill KR-ingur. Hann spilaði í skamman tíma með Víkingi í yngri flokkum en líkaði vistin illa. Hann þurfti því að velja á milli föðurættarinnar sem vildi fá hann í KR og móðurættarinnar sem studdi Val.

Hermann sagði einhverju sinni að tengsl hans við KFUM hefðu líklega orðið til þess að hann fór tólf ára á Hlíðarenda. Hann spilaði í fyrsta sinn með meistaraflokki þegar hann var enn í 3. flokki. Hann varð fjórum sinnum Íslandsmeistari og þrisvar bikarmeistari með Val í meistaraflokki. Hann var hluti af sigursælu liði Vals á sjöunda áratugnum sem landaði titlinum árinu 1966 og 1967.

Hermann var afar leikinn og markheppinn leikmaður og vöktu hæfileikar hans mikla athygli. Þeir erlendu þjálfarar sem voru tíðir gestir hjá íslenskum félögum á þessum tíma tóku vel eftir Hermanni. Einn þeirra, Walter Pfeiffer, tók Hermann með sér til Austurríkis sumarið 1969. Fór svo að Hermann samdi við Eisenstadt til eins árs og skoraði þar eins og annars staðar.

Hermann Gunnarsson í búningi hins nýstofnaða Leiknis árið 1974. Þá tók Hermann fram handboltaskóna í skamman tíma.

Árið 1968 fór í fyrsta skipti fram kosning á knattspyrnumanni ársins hér á landi. Hermann hafði mikla yfirburði í kjörinu. Hann hlaut 378 atkvæða en Þórólfur Beck úr KR kom næstur með 162 atkvæði.

„Lífið snerist um þetta," sagði Hemmi einhverju sinni þegar hann var spurður út í árangur sinn í íþróttum. Auk knattspyrnu spilað Hermann lengi vel handbolta og var góður hornamaður. Lengi vel var hann sá leikmaður sem skoraði flest mörk fyrir Ísland í landsleik eða 17 mörk. Afrekinu náði hann í 41-19 sigri á Bandaríkjunum árið 1966.

Var lengi vel talað að um heimsmet væri að ræða í landsleik. Gústaf Bjarnason bætti met Hermanns með 21 marki í sigri á Kína árið 1997.

Hermann á æfingu með Valsmönnum fyrir stórleikinn gegn Benfica árið 1968.

„Svo kom að því að maður þurfti að velja og ég valdi fótboltann," sagði Hemmi sem var markaskorari af guðs náð. Hann var í liði Vals sem tók á móti Benfica á Laugardalsvelli sumarið 1968 í Evrópukeppni Meistaraliða. Á þessum tíma var Benfica án nokkurs vafa eitt besta lið heims enda hafði liðið spilað til úrslita í keppninni gegn Manchester United nokkrum vikum fyrr. United hafði sigur í framlengdum úrslitaleik.

Valsmenn, með Hermann í broddi fylkingar, náðu fræknu markalausu jafntefli á Laugardalsvelli þar sem vallarmet var sett. 18.243 áhorfendur sáu Eusebio og félaga frá Portúgal lenda í miklu basli með spræka Valsmenn.

Hemmi leikur listir sínar með boltann í snjó á Hlíðarenda.

Hermann spilaði 23 landsleiki fyrir Ísland og skoraði í þeim sex mörk. Hans fyrsta mark kom í hans fyrsta landsleik gegn Wales. Þá kom hann inn á sem varamaður og jafnaði metin í 3-3 skömmu fyrir leikslok.

Eitt markanna kom í 14-2 tapinu gegn Danmörku á Idrætsparken árið 1967. Hermann rifjaði upp leikinn í viðtali við Auðunn Blöndal og Sverri Þór Sverrisson um árið. Þá hafði hann minnkað muninn úr 9-1 í 9-2 en Hermann grínaðist með að Ísland hefði lagt upp með sóknarleik í leiknum. Þegar hann hafi minnkað muninn í sjö mörk hafi fyrirliði liðsins komið til hans hlaupandi og sagt:

„Jæja strákar, nú jöfnum við þetta. Þeir eru gjörsamlega búnir!"

Hermann flutti sig af Hlíðarenda og norður yfir heiðar árið 1970. Þar var hann spilandi þjálfari ÍBA og lagði vel í púkkið með 14 mörkum í efstu deild. Hann sneri svo aftur til Valsmanna eftir tímabilið og vakti skóbúnaður hans töluverða athygli.

Var Hermann þá kominn á hvíta skó en litagleðin í skóbúnaði knattspyrnumanna á þeim tíma var ekki mikil. Var talað um að Hermann hefði smitast af hvítum skóm Alan Ball, landsliðsmanns Englands, sem spilaði með Everton gegn Keflavík í Evrópukeppninni þá um sumarið.

Úr leik Vals og ÍA á Melavellinum á árunum 1974-1976. Hermann er annar Valsmaðurinn frá hægri á myndinni. Mynd/Ljósmyndasafn Reykjavíkur

Þrátt fyrir mikla markaskorun og markheppni var Hermann gagnrýndur eins og aðrar stórstjörnur. Júrí Ilitchev, þjálfari Vals árið 1973, var ekki par sáttur við landsliðsstjörnuna um sumarið.

„Hermann væri ekkert ef félagar hans í liðinu spiluðu ekki upp á hann. Hann vinnur ekki nógu vel í leikjum, vegna þess að hann æfir ekki nógu vel. Hermann er eigingjarn leikmaður og leikur aðeins fyrir sjálfan sig en ekki fyrir liðið. Við hefðum skorað miklu fleiri mörk, ef Hermann hefði viljað, og hann sjálfur hefði skorað 27 mörk en ekki 17, ef hann hefði unnið með félögum sínum," sagði hinn skapmiklu Ilitchev.  

Mörkin 17 sem Hermann skoruðu dugðu honum til að brjóta markamet Þórólfs Beck yfir mörk skoruð á einu tímabil. Met Þórólfs, 16 mörk, hafði staðið frá árinu 1961. Joe Hooley, þjálfari Keflavíkur, nefndi Hermann fyrstan á nafn þegar hann var beðinn um að nefna áhugaverða leikmenn annarra félaga.

Hermann Gunnarsson og Albert Guðmundsson, tveir af fremstu knattspyrnumönnum þjóðarinnar, tefla. Báðir voru miklir Valsmenn.

„Hermann Gunnarsson í Val er mjög leikinn leikmaður og góður fyrir lið sitt. Hermann gæti þó verið enn betri og mér finnst hann ekki vera í nógu góðri æfingu," sagði Hooley. Hermann var þekktur fyrir að skemmta sér töluvert utan vallar.

Hermann lenti í erfiðum meiðslum sumarið 1974 þegar hann brotnaði bæði á ökkla og rist auk þess sem liðbönd slitnuðu í fyrsta leik tímabilsins. Meiðslin voru mikil blóðtaka fyrir Valsliðið.

Hermann var aftur kominn á fleygiferð sumarið 1975 og skoraði meðal annars sjö mörk í röð, öll með höfðinu. Höfðu gárungar að orði að töframátturinn væri farinn úr skóm Hermanns. Nú skoraði hann eingöngu með skalla. Fimm af mörkunum sjö komu í bikarleik gegn Selfossi þar sem Valur vann 8-0 sigur.

Knattspyrnukempurnar heitnu, Hermann Gunnarsson og Guðmundur Rúnar Júlíusson árið 1996. Þá heimsótti Hermann félaga sinn á spítala.

Hermann tók sér hvíld frá knattspyrnuiðkun árið 1977 þá orðinn 31 árs gamall. Hann mætti þó aftur til leiks og varð Íslandsmeistari með Valsmönnum sumarið 1980. Þá hafði Mattías Hallgrímsson skipt úr ÍA yfir til Vals og kunni vel að spila með Hermanni.

„Skemmtilegast fannst mér þegar gamli skólafélagi minn, Hermann Gunnarsson, byrjaði að æfa á nýjan leik og við lékum saman," sagði Mattías eftir tímabilið eftirminnilega. Hermann var líka í skýjunum.

„Þetta er ljúfasti Íslandsmeistaratitill sem ég hef unnið. Þetta er í fjórða skipti sem ég verð meistari. Fyrst varð ég meistari fyrir 14 árum, 1966, síðan aftur 1967 og 1976," sagði Hermann.

Hemmi Gunn tekur boltann á lofti í snjónum á Hlíðarenda.

Hermann á mörg met sem við koma markaskorun hér á landi. Enginn hefur skorað fleiri þrennur í efstu deild á Íslandi. Hann skoraði sjö sinnum þrennu og tvívegis fernu. Þá deilir hann metinu yfir flestar þrennur á einu tímabili (3) með þeim Þórólfi Beck, Skagamanninum Ingvari Elíssyni og Arnari Gunnlaugssyni.

Hermann er fimmi markahæsti leikmaður í efstu deild frá upphafi með 93 mörk, 79 fyrir Val og 14 fyrir ÍBA. Hann átti metið til 1981 þegar Mattías Hallgrímsson skoraði sitt 94. mark. Hermann lagði skóna á hilluna árið 1981.

Minning

Markakóngarnir Guðmundur Steinsson, Hermann Gunnarsson, Tryggvi Guðmundsson og Hörður Magnússon. Mynd/GVA

Margar sögur eru til af Hermanni Gunnarssyni enda varla til betri sögumaður á Íslandi en goðsögnin sjálf. Ólafur Óskar Axelsson, Valsmaður með meiru, á eina góða minningu af marki Hermanns:

Hemmi Gunn var mesta hetja okkar yngri strákanna á Hlíðarenda. Ég man fyrst eftir honum þegar hann, svalastur allra, með gullkross um hálsinn, vippaði á fleygiferð yfir andstæðing, tók boltann síðan á lofti á vítateigslínunni og hamraði upp í þaknetið, maður hafði aldrei séð annað eins, ekki einu sinni í ársgömlum leikjunum sem bárust á spólum með vorskipum frá Englandi og sýndir voru eftir æfingar þar sem nú er "Fjósið". Þetta hlaut að vera flottasta mark allra tíma. Hvergi til á spólu en vel geymt í minninu. Nú þakkar maður bara fyrir alla skemmtunina.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.