Innlent

Kópavogsbær hafnar alfarið beinum eignarrétti Þorsteins

VG skrifar
Kópavogsbær tók Vatnsenda eignarnámi og greiddu Þorsteini 2250 milljónir fyrir. Í dag viðurkennir Kópavogsbær ekki beinan eignarrétt Þorsteins.
Kópavogsbær tók Vatnsenda eignarnámi og greiddu Þorsteini 2250 milljónir fyrir. Í dag viðurkennir Kópavogsbær ekki beinan eignarrétt Þorsteins.

Kópavogsbær lítur svo á, að hvað sem öðru líður, sé Þorsteinn Hjaltested ekki réttur viðtakandi frekara endurgjalds vegnar eignarnáms Kópavogsbæjar á landi Vatnsenda.

Þetta kom fram í máli lögmanns Kópavogsbæjar í fyrirtöku í máli Þorsteins gegn bænum í Héraðsdómi Reykjaness í dag. Þorsteinn krefst þess að bæjaryfirvöld greiði honum 7 milljarða fyrir eignarnám á jörðinni frá árinu 2007 en málið var þingfest árið 2011.

Þorsteinn hefur þegar fengið 2250 milljónir króna vegna eignarupptökunnar, en málið tók nýja stefnu þegar Héraðsdómur Reykjavíkur, og Hæstiréttur Íslands staðfesti í maí síðastliðnum, að Þorsteinn hefði ekki beinan eignarrétt að Vatnsenda og að jörðin væri enn í dánarabúi Sigurðar Hjaltested, sem lést fyrir tæpum fimmtíu árum síðan.

Lögmaður Þorsteins vill meina að óbeinum eignarrétti erfingja Sigurðar hafi verið ráðstafað með endanlegum hætti úr dánarbúinu og því eigi Þorsteinn rétt á greiðslu frá bænum upp á sjö milljarða.

Kópavogsbær krafðist þess í dag að máli Þorsteins gegn bænum yrði vísað frá í ljósi óvissu með beinan eignarrétt á landinu, á meðan lögmaður Þorsteins vill fresta málinu þar til niðurstaða fæst í því máli.

Réttað verður aftur í málinu 20. júní næstkomandi og þá verður líklega ákveðin málflutningur um frávísunarkröfu. Fyrirtakan nú var sú fyrsta síðan í janúar síðastliðnum, en þessi angi þessa flókna máls, hefur verið að velkjast um í réttarkerfinu í rúm tvö ár.

Nú er málið í höndum skiptastjóra dánarbús Sigurðar Hjaltested en þær upplýsingar fengust frá skiptastjóranum að málin þar þokist hægt, og búast má við nýju dómsmáli þar sem tekist verður á um eignarrétt á landinu verðmæta.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×