Körfubolti

Pistill: Endalausar dýfur

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Úr leik Stjörnunnar og Keflavíkur.
Úr leik Stjörnunnar og Keflavíkur. Mynd/Stefán
„Þetta er bara hluti af leiknum.“ „Maður gerir allt til þess að vinna.“ Hversu oft hefur maður heyrt afsakanir sem þessar fyrir því að hraustir menn hendi sér í gólfið við lítið sem ekkert tilefni. Allt er gert til þess að styrkja stöðu liðsins sem gæti, séu tilburðirnir nógu sannfærandi, leikið manni fleiri eða þurfa ekki að glíma við lykilmann úr röðum andstæðinganna.

Dýfukeppni virðist hafa farið fram í öðrum leik Keflavíkur og Stjörnunnar í átta liða úrslitum Domino's-deildar karla á sunnudag. Leikmenn beggja liða hentu sér í gólfið þegar þeir töldu það þjóna hagsmunum liðsins best. Græddu Keflvíkingar á því í eitt skiptið þegar Jovan Zdravevski var vikið af velli auk þess sem hann sætir leikbanni í oddaleiknum annað kvöld. Tilgangurinn helgar víst meðalið.

Eitt er þó víst. Mönnum finnst þetta kjánalegt. Stuðningsmönnum, þjálfum og jú, líka leikmönnum. Það sést í hvert einasta skiptið á svipnum á „sökudólgnum" þegar andstæðingurinn fellur í jörðina fyrir litlar sakir. „Æi common", „ertu ekki að grínast" og „stattu í lappirnar!" er það sem lesa má út úr svipbrigðum þess „brotlega" sem ýmist brjálast yfir tilburðunum eða hlær að þeim. Skiljanlega. Hegðunin er til skammar. Það versta er að nokkrum mínútum síðar liggur sá hneykslaði að ástæðulausu vængbrotinn á gólfinu.

Annað kvöld mætast Keflavík og Stjarnan í oddaleik í troðfullum Ásgarði auk þess sem leikurinn verður sýndur í beinni útsendingu. Leikurinn hefur fengið vænan skammt af umfjöllun, mikið til á röngum forsendum, og eftirvæntingin er mikil. Ég ætla rétt að vona að bestu körfuboltamenn landsins leiðrétti þann misskilning sem myndast hefur eftir síðustu rimmu liðanna: Að menn spili körfubolta láréttir en ekki lóðréttir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×