Skoðun

Ekki flökkusaga?

Stutt svar til Sigurðar Pálssonar vegna greinar hér 23. október.

Ég sagði í Silfri Egils að þetta tal um að íslenska þjóðkirkjan stæðist Mannréttindasáttmála Evrópu líktist flökkusögu – þetta væri sífellt endurtekið en enginn gæti bent á haldbær rök eða upplýsingar málinu til stuðnings. Það stendur enn, þau dæmi sem nefnd hafa verið síðan hafa ekkert með íslensku þjóðkirkjuna að gera og virðast styrkja þá skoðun að hún standist ekki sáttmálann, ef eitthvað er.

Sigurður segir að einfalt sé að láta reyna á þetta. Það er auðvitað ekki rétt. Það kostar vinnu, tíma og peninga – nokkuð sem við sem ekki erum á ríkisspenanum með trúar- eða lífsskoðanir höfum í takmörkuðum mæli.

Þetta er reyndar algeng aðferð kirkjunnar og í takt við barnalega hundalógíkina hjá einum þjóðkirkjuprestinum sem notar gjarnan „þið getið ekki sannað að guð sé ekki til" rökleysuna þegar hann er kominn út í horn.

Þegar kirkjan heldur því fram í umræðum um fyrirkomulag þjóðkirkju á Íslandi að það fyrirkomulag standist mannréttindaákvæði samkvæmt úrskurði mannréttindadómstólsins…þá stendur upp á kirkjuna að sýna fram á að þessi fullyrðing standist. Það er ekki hlutverk okkar hinna að leggja í vinnu við að afsanna. Á meðan kirkjan getur þetta ekki, þá lít ég á þetta sem flökkusögu.

Ég er búinn að svara þessu um sóknargjöldin, þau standast ekki skoðun sem félagsgjöld hversu oft sem þær rangfærslur eru endurteknar og hvað sem nefnd innanríkisráðuneytisins segir. Ef þetta er sú nefnd sem ég held, þá var hún að miklu leyti skipuð prestum. Þá breytir engu þó Siðmennt fái hugsanlega skráningu sem trúfélag, eftir standa þeir sem vilja vera utan félaga og þurfa samt að greiða sinn skatt. Sigurður segir að það sé við ríkið en ekki trúfélög að sakast ef ríkið innheimtir skatt af öllum. Það er rétt, en það er jafn mikið óréttlæti fyrir því.

Kirkjan er á fjárlögum íslenska ríkisins, blaðsíðu 89 fyrir 2012, liður „06-701 Þjóðkirkjan", með öðrum ríkisstofnunum. Og um presta gilda lög og reglur um opinbera starfsmenn. Þetta er því ríkiskirkja.

Svo því sé haldið til haga þá var ég alls ekki að saka Sigurð um að styðja mannréttindabrot, skil ekki hvernig hann fær það út og staðfesti hér að það var ekki ætlunin. Dómurinn sem hann vísar til fjallar einfaldlega um allt annað mál en þjóðkirkju og nefnir það nánast í framhjáhlaupi.

Sigurður hélt því fram í fyrri grein sinni að það væri sameiginlegur skilningur ríkis og kirkju að kirkjan væri ekki ríkisrekin og styður þá fullyrðingu í þeirri seinni að hluti af greiðslum sé „afgjald" af jörðum sem ríkið tók yfir. Þetta er einfaldlega sitt hvor hluturinn, jafnvel þeir sem samþykkja þennan sameiginlega (mis)skilning með jarðirnar geta hæglega litið á heildarpakkann sem ríkisrekstur.

Sigurður segir að mér verði hált á svellinu þegar ég vísi til fréttar blaðsins um hlunnindi presta. Ég vísa hvergi í þessa frétt, enda sendi ég greinina inn daginn áður en fréttin birtist. Ég var að vísa í deilur prests um hlunnindi af jörð sem kirkjan átti og á víst sennilega enn. Minn misskilningur og sjálfsagt að leiðrétta. Það er hins vegar fróðlegt að sjá presta hafa hlunnindi af kirkjujörðum á sama tíma og þeir tala um mikil verðmæti og mikinn arð þeirra jarða sem ríkið yfirtók. Getur verið að kirkjan hafi haldið bestu bitunum og látið ríkið hirða afganginn?

En ég læt þetta nægja hér í Fréttablaðinu. Kannski er óhjákvæmilegt að safna liði og fara með þetta mál til Evrópu.




Skoðun

Sjá meira


×