Innlent

Gagnrýna Ögmund harðlega

Ögmundur jónasson
Ögmundur jónasson
Stjórnsýsla Bæði sjálfstæðiskonur og jafnréttisnefnd Framsóknarflokksins gagnrýna Ögmund Jónasson innanríkisráðherra harðlega vegna niðurstöðu úrskurðarnefndar jafnréttismála um að hann hafi gerst brotlegur við lög.

Halla Bergþóra Björnsdóttir, settur sýslumaður á Akranesi, kærði ráðningu Svavars Pálssonar í embætti sýslumanns á Húsavík til nefndarinnar. Í úrskurðinum kemur fram að Halla hafi haft meiri menntun en Svavar. Hún hafi haft meiri reynslu af störfum á lögmannsstofu, stjórnsýslustörfum og aukastörfum. Hins vegar hafi Svavar haft lengri reynslu af saksókn. Að öðru leyti hafi þau verið jafnhæf. Innanríkisráðherra hafi ekki sýnt fram á aðrar ástæður fyrir ráðningunni en kynferði.

Hvöt, félag sjálfstæðiskvenna í Reykjavík, segir ríkisstjórn sem vilji láta kenna sig við jafnrétti ekki hafa náð að fylgja eigin markmiðum og stefnu. Brot bæði Ögmundar og Jóhönnu Sigurðardóttur, sem var dæmd fyrir sams konar brot í fyrra, séu alvarleg og viðhorf þeirra gagnvart úrskurðum nefndarinnar ekki síður.

Jafnréttisnefnd Framsóknarflokksins segir Ögmund eiga að skammast sín. Jafnréttislögin séu ein grundvallarstoð jafnréttis kynjanna og eftir þeim beri öllum að fara. - þeb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×