Innlent

Íslenskur snekkjusmiður enn í varðhaldi

abu dhabi Þvert á fréttaflutning síðustu daga situr Íslendingurinn enn í varðhaldi.
abu dhabi Þvert á fréttaflutning síðustu daga situr Íslendingurinn enn í varðhaldi.
Rúmlega fertugur íslenskur karlmaður situr í varðhaldi í Sameinuðu arabísku furstadæmunum, en honum er gert að sök að hafa falsað skjal í málaferlum sem hann höfðaði í landinu. Hann neitaði sök fyrir rétti í Dubai á mánudag.

Utanríkisráðuneytið hefur haft mál mannsins á sínu borði um nokkurra vikna skeið, en getur litlar upplýsingar gefið að svo stöddu.

Samkvæmt fréttaflutningi þarlendra miðla, helst dagblaðsins The National í Abu Dhabi, hafði Íslendingurinn leitað að fjárfestum til að stofna fyrirtæki um smíði á snekkjum. Komst hann í samband við fjársterkan aðila sem hafði áhuga á að fjárfesta í fyrirtæki hans, en bað fyrst um að smíðuð yrði fyrir sig snekkja.

Íslendingurinn gekk að þeim skilmálum með því fororði að fjárfesting í fyrirtækinu kæmi til á móti. Snekkjunni var skilað til væntanlegs fjárfestis en hann stóð ekki við sinn hluta samkomulagsins. Snekkjan mun hafa kostað um 130 milljónir íslenskra króna. Íslendingurinn höfðaði mál árið 2010, sem hann vann, en var síðar ákærður fyrir að hafa falsað skjal sem hann lagði fram í málinu upphaflega.

Samkvæmt upplýsingum frá utanríkisráðuneytinu er maðurinn enn í haldi en unnið er að lausn hans, sem líklega næst í gegn á allra næstu dögum.

Þinghaldi hefur verið frestað til 29. september næstkomandi; manninum hefur verið gert að láta af hendi vegabréf sitt og greiða 1,6 milljónir króna í tryggingu til að vera sleppt úr varðhaldi.- shá




Fleiri fréttir

Sjá meira


×