Erlent

Merkel vill breyta sáttmála ESB

samþætting Der Spiegel segir Merkel vinna því fylgi að breytingar verði gerðar á sáttmála ESB. NordicPhotos/AFP
samþætting Der Spiegel segir Merkel vinna því fylgi að breytingar verði gerðar á sáttmála ESB. NordicPhotos/AFP
Angela Merkel Þýskalandskanslari vill kalla leiðtoga Evrópusambandsins (ESB) saman fyrir lok árs til að ná saman um breytingu á sáttmála sambandsins. Þetta kemur fram í þýska blaðinu Spiegel og vefurinn Euobserver segir frá.

Óvíst er hvort Merkel verði að ósk sinni en hún hefur áður lýst yfir vilja til frekari pólitískrar samþættingar ESB-ríkja í skiptum fyrir frekari samruna í efnahagsmálum til að vinna gegn skuldavandanum á evrusvæðinu.

Spiegel segir Nikolaus Meyer-Landrut, ráðgjafa Merkel í Evrópumálum, róa að því öllum árum innan kerfisins í Brussel að hefja undirbúning nýs sáttmála.

Grundvallarreglur ESB eru bundnar í sáttmála og þurfa fulltrúar stjórnvalda og þjóðþings hvers lands, auk Evrópuþings og Framkvæmdastjórnar ESB að samþykkja breytingar.

Tillaga Merkels munu þó væntanlega mæta einhverri andstöðu, enda eru ekki allir á því að breytinga sé þörf. Til dæmis vinnur Hermann van Rompuy, forseti leiðtogaráðs ESB, nú að tillögum um aðgerðir til lausnar á vanda evrusvæðisins, en þær eiga að vera tilbúnar í október.

- þj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×