Innlent

Ár í gróðurhús á Hellisheiði

Sigurður Kiernan og Bjarni Bjarnason forstjóri OR. Framkvæmdir við gróðurhúsið á Hellisheiði tefjast um nokkra mánuði.
Sigurður Kiernan og Bjarni Bjarnason forstjóri OR. Framkvæmdir við gróðurhúsið á Hellisheiði tefjast um nokkra mánuði.
Framkvæmdum við gróðurhús á Hellisheiði hefur verið frestað til ársloka en til stóð að þær hæfust í haust. Þetta var ákveðið á hluthafafundi Geogreenhouse síðastliðinn föstudag.

Stefnt er að því að gróðurhúsið verði svo tekið í notkun haustið 2013 að sögn Sigurðar Kiernan, stjórnarformanns Geogreenhouse. Hann segir enn fremur að fyrirtækið eigi í samningaviðræðum við fjárfesta og sér hann fram á að þeim viðræðum ljúki síðar á þessu ári.

Gróðurhúsið verður reist í þremur áföngum en strax í fyrsta áfanga verður það fimm hektarar sem er meira en allt það svæði sem notað er til tómataræktunar á Íslandi. Árið 2015 verður gróðurhúsið síðan komið í tvöfalda stærð, það er að segja tíu hektara, en svo er óvíst enn hvenær lokaáfanga verður náð en þá verður gróðurhúsið stækkað upp í tuttugu hektara.

Fyrirtækið ræktar þrjár tegundir af tómötum og ef allt gróðurhúsið yrði notað undir þá tegund sem mest gefur af sér væri hægt að rækta um 4.000 tonn á ári strax eftir fyrsta áfanga, að sögn Sigurðar. Eftir að lokaáfanga er náð verður hægt að rækta 18.000 tonn, en hann segir að ekki sé miðað við svo mikla nýtingu. Tómatarnir verða allir fluttir út á Bretlandsmarkað. - jse



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×