Fastir pennar

Hinn ómissandi óþarfi

Guðmundur Andri Thorsson skrifar
Listahátíðin í Reykjavík var alltaf stórviðburður í lífi föður míns. Hann hafði til að bera einhvers konar ofurnæmi á list og skynjaði af alefli hvern einasta viðburð þessarar hátíðar – hann varð djúpt snortinn af því sem honum þótti mikil list og bölsótaðist yfir hinu sem honum þótti vera loddaraskapur, var aldrei sama, yppti aldrei öxlum yfir neinu. Hann var listtrúar og hvers kyns kaldhæðni eða geispar kringum list var eitur í hans beinum. Þegar hann sótti listviðburð var hann að fara í kirkju, nálgast helgidóm.

"hið fullkomna er ómetanlegt“Ég veit ekki hversu oft hann vitnaði í setningu Kjarvals – kannski einu sinni í viku: „Viðleitnin er borgunarverð en hið fullkomna er ómetanlegt", og skildi hana sínum skilningi: að allir ættu vissulega erindi upp á dekk og skilið að viðleitni þeirra væri metin en sjálf listin væri í upphæðum og ljómaði þar óumræðilega. Hann var sem sé elítisti, hikaði ekki við að skipta listrænni starfsemi fólks í „viðleitni" og „List". Þetta þykir ekki framsækið viðhorf á okkar dögum þegar einhvers konar jafnaðarkrafa ríkir og það heyrir til grundvallarréttinda hvers listamanns að vera metinn á eigin forsendum, eins og það er kallað, og hægt er að kæra slæma dóma til Persónuverndar.

En þessi djúpa, fjálga, nánast trúarlega og svolítið bernska aðdáun á mikilli list: var hún ekki eindregnari í gamla daga? Ég veit það ekki. Þjóðin var einhvern veginn opnari og minna tortryggin; fannst ekki búið að plata sig jafn mikið upp úr skónum og nú. Maður kom í Laugardalshöllina – sem manni þykir æ flottari eftir því sem fjölgar nýjum húsum – og það var eitthvað óumræðilegt í loftinu; stórviðburður í bæjarlífinu; Listviðburður með viðurkenndum og alþjóðlegum Snillingi. Allir læddust inn með eftirvæntingarfullu hátíðarfasi, í sparifötunum og hvísluðust á og í hléinu kinkaði fólk íbyggið kolli hvert til annars og skiptist á andvörpum um mikilfengleik hins erlenda Snillings og þessarar stundar sem geymast myndi í minninu ævina á enda. Og þannig var það: við munum gamla tónleika nótu fyrir nótu og getum farið þangað aftur í huganum og upplifað allt saman á ný allt til loka þegar klappið breiddist út um Laugardalshöllina eins og allt fólkið þarna inni hefði eina vitund.

Þannig var það. Þannig virkar listin á fólk. Orkan þéttist í loftinu og fellur síðan yfir viðstadda eins og ósýnilegt og blíðlegt regn; allt verður kærleikur. Listin hrærir geðið ef við gætum þess að halda því opnu en brynjum okkur ekki með kaldhæðni eða þeirri hugmynd að við höfum séð og lifað þetta allt áður – eða því viðhorfi að þetta sé ekkert fyrir okkur, annað sé okkur ætlað.

Listin á tímum fáhyggjunnarÞví okkur er meira skipað niður í hólf en í gamla daga þegar Reykjavík var eindregnari smábær og einstaklingar þurftu að gegna mörgum og ólíkum hlutverkum til að halda hér gangandi nútímasamfélagi: og löngunin var svo sterk að fá hlutdeild í ævintýrum heimsins. Núna er fólk rekið í kvíar sem erfitt getur verið að brjótast út úr, þar sem maður þarf að gerast áskrifandi að einhverjum pakka lífsviðhorfa og áhugamála. Maður getur ekki hlustað á Schubert ef maður er Manch-ester United aðdáandi. Stundum er talað um að við lifum á tímum fjölhyggjunnar. Kannski – lífsviðhorfin eru í hillum stórmarkaðanna, búddatrú við hliðina á hindúasið hinum megin við álfatrú, Moonisma, Guðsbörn og kristindóm og þetta „eitthvað" sem fólk segist stundum trúa á – en það hvarflar samt stundum að manni að við lifum á tímum fáhyggjunnar. Við erum enn ekki alveg laus við minimalismann sem fór með notagildis-meinlokuna út yfir öll velsæmismörk. Hann er enn alls staðar: í nýja níska norræna eldhúsinu þar sem eitthvert frauð er á miðjum diskinum og er úr sveskjugraut, sviðum, njóla og marhnút en bragðast eins og tupperware-matur því að öllum óþarfa hefur verið úthýst – óþarfa á borð við bragð. Hann er náttúrlega á heimilum þar sem innréttingameistarar hafa fengið útrás fyrir óbeit sína á hlutum: allt er innbyggt, hvítir eða gráir veggir þar sem þú þarft draga út allt og bara einn stóll í tómri stofu – og er eftir einhvern – og öllum óþarfa hefur verið úthýst, óþarfa á borð við líf. Við sjáum hann í gráum háum byggingum þar sem leitast er við að hafa ekkert sem gleður augað en bara eitthvað sem hryggir það því öllum óþarfa hefur verið úthýst – óþarfa á borð við fegurð. Við heyrum hann í músíkinni þar sem þrástagast er á fábrotinni laglínu út í hið óendanlega og öllum óþarfa hefur verið úthýst – óþarfa á borð við mennsku. Við sjáum hann í list sem stefnir að hreinleika og úthýsir öllum óþarfa. Óþarfa á borð við list.

Í hvað notar maður list? Ekkert. Hún er ekki til neins. Hún er fánýt. Það er hugsanlega alveg hægt að lifa án listar – en þá þarf það að vísu að vera fagurt og gott líf. Hið dásamlega og hið varhugaverða við listina er að hún er ekki til neins. Hún hefur fólgið notagildi sitt í sjálfri sér. Þorsteinn Gylfason sagði þá frægu setningu einu sinni: menning er það að gera hlutina vel. Kannski má prjóna við þetta og segja: List er það að gera hlutina óþarflega vel. List er það sem bætir óþarfanum við verk og hluti. Það þarf kannski að mála vegg. List er það að mála vegginn óþarflega vel; gera eitthvað úr verkinu sem fær gildi sitt af sjálfu sér, hvort sem maður afræður að sletta á vegginn eða maka hann ólífuolíu eða þekja hann blómamynstrum …

Sem sagt óþarfi. Hinn ómissandi óþarfi. Og nú streyma hingað erlendir snillingar. Volodos í gærkvöldi og þannig áfram; stórviðburðir á hverju degi. Sjálfan er mig farið að lengja eftir jazz-snillingnum Keith Jarrett en það stendur eflaust til bóta. Gleðilega hátíð!



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×