Innlent

Forseti Landsdóms krafði Össur um nöfn

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra bar vitni um störf forvera síns á stóli forsætisráðherra fyrir Landsdómi í gær.
Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra bar vitni um störf forvera síns á stóli forsætisráðherra fyrir Landsdómi í gær. Fréttablaðið/GVA
Báðir bankastjórar Landsbankans fullyrtu við seðlabankastjóra að yfirtaka ríkisins á Glitni hefði engin áhrif á hina bankana. Þetta kom fram í vitnisburði Össurar Skarphéðinssonar fyrir Landsdómi. Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra telur forvera sinn hafa gert allt sem hann gat til að afstýra bankahruni árið 2008.

„Mér kom aldrei til huga að einhver banki myndi rúlla, svo ég upplýsi fávísi mína," sagði Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra fyrir Landsdómi í gær, spurður um hvernig hann hafi metið stöðuna í kringum páskana 2008.

Össur, sem var iðnaðarráðherra þegar bankakerfið hrundi, sagði að síðar hafi runnið á hann tvær grímur. Hann hafi þess vegna spurt á fundi í Seðlabankanum 28. september hvaða áhrif yfirtaka ríkisins á 75 prósenta hlut í Glitni kynni að hafa. Þar hafi hann verið fullvissaður um að hinir bankarnir myndu ekki fara í þrot í kjölfar þeirrar aðgerðar.

Markús Sigurbjörnsson, forseti Landsdóms, spurði Össur nánar út í þetta atvik, og vildi fá að vita hver eða hverjir það hafi verið sem hafi fullvissað Össur um að hinir bankarnir myndu ekki falla.

Össur sagðist hafa spurt þessarar spurningar þrisvar. Í fyrsta skiptið á fundinum í Seðlabankanum. Þar hafi hann verið upplýstur um að Sigurjón Þ. Árnason, bankastjóri Landsbankans, hafi fullyrt þetta daginn áður.

Trúði ekki Davíð Oddssyni„Ég held að það hafi verið þáverandi seðlabankastjóri [Davíð Oddsson] sem sagði þetta. Ég var ekki alveg vissum að hann hafi sagt mér satt," sagði Össur. Hann hafi því spurt annan starfsmann Seðlabankans sem setið hafi fundinn með Sigurjóni í einrúmi þegar þeir brugðu sér á sama tíma á salernið, en fengið sömu svör.

Síðar sama kvöld segist Össur hafa spurt Davíð aftur. Davíð hafi þá rætt í síma við Halldór J. Kristjánsson, bankastjóra Landsbankans, og hafi hann svarað á sama veg og Sigurjón.

„Ég held að Geir [H. Haarde] hafi gert allt sem í hans valdi stóð […] til að taka á þessum vanda," sagði Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra í vitnisburði hennar fyrir Landsdómi í gær.

Hún sagði Geir, sem er ákærður fyrir Landsdómi fyrir vanrækslu í aðdraganda bankahrunsins, meðal annars hafa beitt sér fyrir því að styrkja gjaldeyrisvarasjóð Íslands með gjaldmiðlaskiptasamningum við Danmörku, Svíþjóð og Noreg. Auk þess hafi hann og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, þáverandi utanríkisráðherra reynt að leysa lausafjárvanda bankanna, meðal annars með því að vinna gegn neikvæðri ímynd íslensku bankanna.

Rætt var innan ríkisstjórnarinnar árið 2008 að viðskiptabankarnir þrír væru of stórir, en Jóhanna sagði ekki hægt að saka Geir um að hafa ekki brugðist við þeirri stöðu. Enginn hafi bent á þær aðgerðir sem hægt hefði verið að grípa til árið 2008 til að minnka efnahagsreikning bankanna. Andrúmsloftið hafi verið afar viðkvæmt, og allt sem sagt hafi verið hafi getað haft áhrif á bankana. Þetta er svipað viðhorf og heyrst hefur frá öðrum stjórnmálamönnum og embættismönnum sem borið hafa vitni.

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra, sem bar vitni á undan Jóhönnu í gær, var sömu skoðunar. Hann sagðist enn ekki hafa hitt þann mann sem hafi geta bent á hvernig hefði verið hægt að framkvæma það á árinu 2008.

Glæpir sem jaðra við landráð
Össur Skarphéðinsson heilsaði Sigríði Friðjónsdóttur, saksóknara Alþingis, þegar hann gekk í salinn í gær.Fréttablaðið/GVA
Jóhanna var harðorð í garð Seðlabankans, og sagðist eins og aðrir hafa tekið mark á skýrslum sem frá bankanum komu árið 2008. Í skýrslu sem kom út í maí hafi komið fram að staða bankanna væri góð, og það hafi róað hana. Eftir á að hyggja hafi verið afar sérkennilegt að bankinn hafi látið slík plögg frá sér á þessum tíma.

Mikið uppnám varð á ríkisstjórnarfundi þann 30. september 2008 þegar Davíð Oddsson, þáverandi formaður bankaráðs Seðlabanka Íslands, kom óvænt á fundinn, sagði Jóhanna. Hún sagði í gær að Davíð hafi greint ríkisstjórninni frá því að bankakerfið væri að hrynja, og hafi nánast talið að loka þyrfti landinu.

Þá segir hún Davíð hafa viljað að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar sem þá sat viki, og þjóðstjórn tæki við völdum. Jóhanna orðaði það þannig í gær að ekki hafi allir verið ánægðir með þá hugmynd Davíðs, enda varð hún ekki að veruleika.

Össur lýsti fundinum með Davíð í meiri smáatriðum. Hann sagði ríkisstjórnarfundinn hafa verið byrjaðan þegar Geir hafi verið kallaður af fundi, sem sé í sjálfu sér mjög óvenjulegt. Davíð hafi svo fylgt Geir inn á fundinn.

Á fundinum greindi Davíð ríkisstjórninni frá því að ekki hafi tekist að bjarga málunum með því að leggja Glitni til hlutafé frá ríkinu tveimur dögum fyrr, sagði Össur. Það hafi verið gert að undirlagi Davíðs. Viðbrögð markaðarins voru ekki eins og reiknað hafði verið með, lánshæfismat bankanna féllu og lánalínur þornuðu.

Þá sagði Össur að Davíð hafi notað „nokkur vel valin orð" yfir eigendur tveggja „tilgreindra" banka. Hann sagði að rétt væri að stórefla efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra því eigendur bankanna tveggja hafi framið glæpaverk sem jaðraði við landráð.

Össur nefndi bankana ekki á nafn. Í skýrslu Seðlabankans um fjármálastöðugleika frá því í maí það sama ár fengu Kaupþing og Glitnir mun lakari umsögn en Landsbankinn.

Mismeðvituð um samráðshópÖssur sagði að Davíð hafi ekki fyrr varað við alvarlegri stöðu íslenska fjármálakerfisins í sín eyru. Eins og Jóhanna sagðist hann hafa treyst skýrslu Seðlabankans sem út kom í maí 2008 þar sem bankarnir voru sagðir standa traustum fótum. „Skýrslan frá Seðlabankanum í maí var túlkað þannig af fjölmiðlum og stjórnmálamönnum að staða bankanna væri í lagi," sagði Össur.

Jóhanna sagðist fyrst hafa heyrt af starfi samráðshóps um fjármálastöðugleika árið 2006. Í hópnum sátu fulltrúar forsætisráðuneytisins, fjármálaráðuneytis, viðskiptaráðuneytis, Fjármálaeftirlits og Seðlabanka. Geir er meðal annars sakaður um að hafa ekki beitt sér fyrir því að vinna hópsins væri markvissari.

Jóhanna sagðist hafa heyrt af samráðshópnum í svari þáverandi viðskiptaráðherra við fyrirspurn hennar á Alþingi árið 2006.

Össur virðist ekki hafa fylgst með þeirri fyrirspurn samflokkskonu sinnar því hann sagði fyrir Landsdómi í gær að hann hafi fyrst heyrt af tilvist samráðshópsins á ríkisstjórnarfundi í mars 2008. Hann sagðist eftir það hafa talið að hópurinn ætti að vinna að einhvers konar viðbragðsáætlun vegna fjármálaáfalls og fylgjast grannt með stöðu mála.

Össur ekki rétti maðurinnIngibjörg Sólrún Gísladóttir, þáverandi formaður Samfylkingarinnar, vildi ekki að Björgvin G. Sigurðsson, þáverandi viðskiptaráðherra, yrði látinn vita af fundi æðstu ráðamanna um yfirtöku á 75 prósenta hlut í Glitni haustið 2008, sagði Össur.

Hann segir Ingibjörgu, sem var þá stödd í Bandaríkjunum, hafa hringt í sig klukkan 18 á sunnudegi og beðið sig að vera fulltrúa sinn og Samfylkingarinnar á fundi með forsætisráðherra, seðlabankastjóra og fleirum.

Össur sagðist ekki hafa haft mikinn áhuga á því, hann hafi ekki talið sjálfan sig rétta manninn til að sitja slíkan fund, enda bankamál fjarri hans sérsviði. Ingibjörg hafi talið hann á að fara, og sent með honum Jón Þór Sturluson, aðstoðarmann Björgvins.

Össur sagðist hafa viljað hringja í Björgvin, en Ingibjörg hafi ekki viljað það. Þegar leið á fundinn hringdu Össur og Jón Þór í aðra ráðherra Samfylkingarinnar til að fá umboð þeirra til að taka ákvarðanir í nafni flokksins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×