Innlent

Getur tekið fram fyrir hendur lögreglu

Sigríður Friðjónsdóttir
Sigríður Friðjónsdóttir
Ríkissaksóknari ætlar að setja lögregluembættum verklagsreglur til að tryggja að þegar heimild er veitt til að hlera síma verði þeim sem hlerað er hjá tilkynnt um eftirlitið innan eðlilegra tímamarka. Virði lögregla ekki tímamörkin mun ríkissaksóknari grípa inn í.

Ekki hefur verið ákveðið nákvæmlega hversu langur tími má líða frá því að hlerað er þar til lögreglu ber að tilkynna þeim sem hlerað er hjá, segir Sigríður Friðjónsdóttir ríkissaksóknari.

Hún segir að væntanlega verði sett ákveðin tímamörk, en lögregluembættin geti farið yfir þau ef rannsóknarhagsmunir krefjist þess. Þá þurfi að rökstyðja það sérstaklega við ríkissaksóknara.

Sigríður segist sjá það fyrir sér að þessi mál komist í þann farveg að ef lögreglustjórar tilkynni ekki um hleranir innan tímamarkanna og láti ríkissaksóknara ekki vita hvers vegna, muni ríkissaksóknari taka fram fyrir hendur lögreglu og tilkynna þeim sem hlerað var hjá um málavöxtu.

Dæmi eru um að meira en eitt og hálft ár líði frá því að embætti sérstaks saksóknara hleraði síma grunaðra þar til þeim var tilkynnt um hleranirnar, eins og fram kom í Fréttablaðinu í vikunni.

Spurð hvort það falli innan eðlilegra marka segir Sigríður: „Í máli sem tekur svona langan tíma í rannsókn getur það í sjálfu sér alveg verið eðlilegt, já. [...] Auðvitað er þetta mat [sérstaks saksóknara] og við munum fara yfir það.“- bj



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×