Gagnrýni

Helsi og frelsi

Þóroddur Bjarnason skrifar
Verk Ragnheiðar eru full af vangaveltum, heilabrotum, samfélags- og sjálfsskoðun, segir í dómi gagnrýnanda.
Verk Ragnheiðar eru full af vangaveltum, heilabrotum, samfélags- og sjálfsskoðun, segir í dómi gagnrýnanda. FRÉTTABLAÐIÐ/VALLI
Hugleikir og fingraflakk

Stiklur úr starfsævi

Ragnheiður Jónsdóttir

Sýningarstjóri:Eiríkur Þorláksson

KJARVALSTAÐIR



Sýningin Hugleikir og fingraflakk - Stiklur úr starfsævi Ragnheiðar Jónsdóttur er tvískipt. Í öðrum helmingi salarins eru frjálslegar óhlutbundnar teikningar listakonunnar en í hinum er hin agaða og frásagnarlega grafík.

Þessi tvískipting er líka mjög skýr á ferli Ragnheiðar, enda hætti hún um 1990 að vinna í grafík, og sneri sér að þessum stórum teikningum og hefur einkum unnið að þeim síðan.

Það sem vekur athygli við skoðun sýningarinnar er að þessi umskipti listamannsins frá grafík yfir í teikningu virðast ekki hafa snúist eingöngu um miðilinn, heldur er hér um að ræða skref sem listamaðurinn tekur úr helsi yfir í frelsi, ef svo má að orði komast.

Til að undirstrika þetta segir Ragnheiður þegar hún er spurð um það í sýningarskrá hvort hún myndi þrykkja myndir í sömu stærð og teikningarnar, ef hún gæti það. "Svarið var skýrt: Nei, það myndi ég aldrei gera. Mér finnst ég alltaf vera í fríi þegar ég teikna. En aftur á móti í þrælabúðum þegar ég vinn í grafík."

Á grafíktímabilinu hefur Ragnheiður verið kröfuhörð á sjálfa sig, bæði tæknilega og hugmyndalega. Hún er afar flinkur grafíklistamaður, en vann verk sín samhliða því að reka stórt heimili og ala upp hóp af börnum. Þessi hversdagsleiki fær að birtast í verkunum sjálfum og þannig er það ekki bara tæknin sem er krefjandi heldur umfjöllunarefnin líka.

Verkin eru full af vangaveltum, heilabrotum, samfélags- og sjálfsskoðun. Táknmyndir eins og rimlar, bækur, blóm og kjólar standa fyrir þau ýmsu hugðarefni sem listamaðurinn tókst á við í sínu daglega lífi og varð vitni að í umhverfi sínu. Þarna má nefna kvenfrelsishreyfinguna í samfélaginu sem Ragnheiður túlkar í verkum sínum meðal annars.

Í teikningunum er það á hinn bóginn hin sjálfsprottna óhlutbundna sköpun sem ræður ríkjum, yfir henni ríkir frjáls andi, verkin eru óbundin af meiningum, hrein list fyrir skynfærin.

Þegar litið er yfir salinn þá er það strax áberandi hvað sýningin hefur svart-hvítt yfirbragð, sem er auðvitað ekki skrítið. Verkin eru nær öll í svart-hvítu, rétt eins og veggirnir í salnum og loftið.

Það sem brýtur upp grátónana er gult parketið og svo blátt málverk Ragnheiðar, Vetur, frá árinu 2000, í einu horni sýningarinnar. Þetta eina verk í lit gerir heilmikið fyrir heildina, en að ósekju hefði mátt brjóta sýninguna svona upp á fleiri stöðum.

Áhrifamestu teikningar Ragnheiðar eru Húmtjöld II-III frá árinu 1996. Það eru verk sem búa yfir dulúð og spennu, en þarna er listrænn þroski Ragnheiðar hugsanlega að ná nýjum hæðum.

Af grafíkverkunum er flottur veggur með bókamyndunum sex frá 1981, Saga. Textinn sem fylgir með er einnig kómísk lesning þar sem Ragnheiður líkir bókum við konur.

Víða í grafíkhlutanum eru beinar og óbeinar vísanir í heim kvenna, líkama þeirra og veruleika, og þar er nóg að tala um hinar mjög svo fallegu blómamyndir og svo myndaröðina með kjólunum.

Í velþekktum grafíkmyndum hennar af konum með kökur á höfðinu, er það svo aftur hæfileiki Ragnheiðar til að grípa á lofti hugmynd úr hversdeginum og myndgera á gamansaman hátt, sem nýtur sín vel.

Niðurstaða: Sýning á verkum hæfileikaríkrar listakonu, með tvískiptan feril. Verkin standa flest vel fyrir sínu, en sýningin bætir engu nýju við.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×