Menning

Leitar að geggjuðustu bílunum

Finnur Orri Thorlacius leitar að geggjuðustu bílum landsins.
Finnur Orri Thorlacius leitar að geggjuðustu bílum landsins. FRÉTTABLAÐIÐ/VALLI
Finnur Orri Thorlacius leitar að geggjuðustu bílum landsins í tilefni útgáfu bókarinnar 100 geggjuðustu bílarnir. Finnur þýddi bókina yfir á íslensku en höfundar hennar eru þeir sömu og stýra hinum vinsæla sjónvarpsþætti Top Gear.

"Sjö af þessum hundrað bílum sem fjallað er um í bókinni eru til á landinu og mig langaði að safna þeim saman í tilefni útgáfu bókarinnar. Þetta var töluverð leit og ég þurfti að beita ýmsum aðferðum til að hafa upp á þeim og ég er enn þá á höttunum eftir tveimur," útskýrir Finnur Orri.

Bílarnir sem Finnur Orri ætlar að safna saman eru meðal annars af tegundinni Citroen DS, Citroen 2CV, Unimog, Hummer H1 og Pontiac Aztec. "Geggjuðustu bílarnir eru ekki endilega þeir flottustu.

Þetta orð getur líka átt við ljóta og illa hannaða bíla. Citroen DS þótti einn sá flottasti í heimi á sínum tíma og var hlaðinn ýmsum nýjungum. Unimog-bíllinn er fjallabíll sem hjálparsveitir hafa meðal annars mikið notað. Pontiac Aztec þykir aftur á móti einn ljótasti bíll sem teiknaður hefur verið."

Bílarnir verða til sýnis í Opel-salnum við Ármúla 17 á laugardag þó Hummerinn gæti þurft að standa úti sökum stærðar. "Ég vona að fólk komi til að skoða þetta með okkur. Það er þó eitt vandamál, ég er að fara norður í tökur á Game of Thrones sama dag og því óvíst hvort ég verði á staðnum. Ég reyni að semja um að fá að fljúga norður svo ég missi ekki af þessu," segir Finnur Orri glaðlega að lokum.

- sm






Fleiri fréttir

Sjá meira


×