Innlent

Húsnæði Listaháskóla Íslands handónýtt

Jóhanna Margrét Gísladóttir. skrifar
Húsnæði Listaháskóla Íslands að Sölvhólsgötu er ótækt fyrir þá starfsemi sem þar fer fram að mati nemenda. Reglur um brunavarnir og aðgengi eru þverbrotnar, loftræsting er ónýt og hljóðeinangrun lítil sem engin. Sextán nemendur í dansdeild skólans deila fjórum sturtum en eini strákurinn notar skáp sem búningsklefa.

Við Sölvhólsgötu er leiklistar-, dans og tónlistardeildir Listaháskólans til húsa í gamla Landsmiðjuhúsinu, upphaflega var um bráðabirgðahúsnæði að ræða og hafa nauðsynlegar framkvæmdir á húsnæðinu til að það henti starfseminni aldrei verið gerðar.

„Hér er mjög hljóðbært á milli herbergja, það er okkar vandamál," segir Sveinn Enok Jóhannsson, formaður nemendafélags tónlistardeildar LHÍ. „Síðan kemur á daginn eftir að bygginarfulltrúi tók húsið út í gær, öryggisreglur eru brotnar, og hafa verið ekki í lagi í sjö ár."

Hann segir að byggingarfulltrúi borgarinnar hafi sagt skilyrði fyrir útgáfu byggingarleyfis fyrir húsið hafi ekki verið uppfyllt, þá séu brunaútgangar ekki merktir, brunahurðir og eldvarnarveggi vanti og aðgengi sé slæmt.

Sveinn segir húsnæðið beinlínis heilsuspillandi þar sem til dæmis tónlistarnemendur þurfi að stunda æfingar tímunum saman í litlum gluggalausum rýmum með engri loftræstingu og lítillri hljóðeinangrun.

„Þá getur sá sem er í tónsmíðum verið að vinna að verki í einni stofu, það er kammer æfing í annarri stofu, suzuki æfing í hinni og allt blandast þetta saman, þetta er bara ekki hægt."

Fyrir utan húsið hefur nokkrum kofum verið komið fyrir og þar er meðal annars æfingarrými dansara.

„Það er einn strákur á dansdeildinni og hann hefur ekki búningsklefa eða sturtuaðstöðu," segir Þórunn Ylfa Brynjólfsdóttir, nemandi á dansdeild LHÍ. „Við þurfum að deila sturtunni saman, það eru fjórar sturtur og sextán nemendur og þetta er alls ekki ásættanlegt."

„Við vorkennum greyið stráknum svo mikið. Hann er ekki einu sinni í búningsklefa, hann er í skáp þar sem við geymum jóga dýnur og þegar við ætlum í pílates þurfum við að banka: „Viktor, ertu nokkuð þarna inni?" og fá jóga dýnurnar."

Nemendur ætla að mómæla aðstöðunni fyrir utan mennta- og menningarmálaráðuneytið á morgun.

„Og vera þá með listsköpun sem að fer vanalega fram hér annað hvort í anddyrinu og fyrir utan, vera með kennslustund og sýna hvernig þetta á að virka, allir í einni kös."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×